Kristín I. Páls­dóttir, tals­kona Rótarinnar, segir á­byrgðar­leysi af em­bættis- og stjórn­mála­mönnum að ýta undir hug­myndir um for­varnar­fræðslu til barna sem eigi sér ekki stoð í viður­kenndum fræðum. Kristín hefur sér­hæft sig í fíkni­fræðum og segir að það séu úr­elt fræði að segja börnum sögur af neyslu eða sýna þeim kvik­myndir með neyslu­sögum til að forða þeim frá neyslu eða fíkn.

Í síðustu viku hófst síðan á­takið „Vaknaðu“ sem er sam­starfs­verk­efni Á allra vörum og sam­takanna Ég á bara eitt líf sem hafa undan­farin ár barist gegn vímu­efna­neyslu ung­menna. Á þeirra vegum hafa verið birtar aug­lýsingar í sjón­varpi þar sem má sjá sögu drengs sem leiðist út í neyslu og lætur lífið að lokum.

„Þetta er úr­elt að­ferðar­fræði, ekki að mér finnist það, heldur segir það í rann­sóknum. Það vita þeir sem hafa kynnt sér rann­sóknir. Þú ert ekki að fara að bæta neyslu­menningu, eða fæla ung­linga frá því, með svona sögum. Það virkar ekki þannig. Ung­lingar eru ekki þannig að þeim finnist það eiga við sig, þó ein­hver annar hafi lent í ein­hverju. Það er eitt af því sem að rann­sóknir sýna. Þetta er því ó­fag­legt og skað­legt,“ segir Kristín í sam­tali við Frétta­blaðið

Kristín segir að þær að­ferðir sem sam­tök eins og Eitt líf notast við sam­ræmist ekki nýjustu þekkingu á sviði for­varna og segir að henni finnist á­byrgðar­leysi af em­bættis­mönnum að styðja við slík verk­efni. En þegar á­takið hófst voru við­staddar Lilja Al­freðs­dóttir, mennta­mála­ráð­herra, Agnes Sigurðar­dóttir, biskup, Alma D. Möller, land­læknir og Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir, lög­reglu­stjóri.

„Fólk sem hefur þekkingu á þessum málum á Ís­landi er mjög hissa að em­bættis­menn séu að styðja við svona verk­efni því em­bættis­menn hafa á­byrgð til að sjá til þess að verk­efni séu í sam­ræmi við nú­tíma­þekkingu á for­vörnum,“ segir Kristín.

Frá blaðamannafundi í síðustu viku þegar átak Á allra vörum hófst. Á myndinni má sjá þær Lilju Al­freðs­dóttur, mennta­mála­ráð­herra, Agnesi Sigurðar­dóttur, biskup, Ölmu D. Möller, land­lækni og Sig­ríði Björk Guð­jóns­dóttur, lög­reglu­stjóra.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Neysluharmsaga sem hefur ekkert forvarnargildi

Kristín birti í gær færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hún segir að for­varnir felist ekki í því að segja sögur af neyslu eða búa til bíó­myndir um neyslu. Þar vísar Kristín sér­stak­lega til bíó­myndarinnar Lof mér að falla sem kom út í fyrra.

„Þetta er neyslu­harm­saga sem hefur ekkert for­varnar­gildi. Þetta er ef­laust á­gætis mynd, en hún er ekki for­varnar­verk­efni og hefur ekkert þannig gildi,“ segir Kristín.

Kristín segir að það að koma börnum í til­finninga­legt upp­nám sé heldur ekki for­vörn.

„Til­finninga­legt upp­nám er heldur ekki for­vörn. Það að senda fólk í skóla til að segja harm­sögur úr neyslu er ekki for­vörn. Þetta sýndu rann­sóknir á níunda ára­tugnum fram á og þær hafa verið endur­teknar með sömu niður­stöðu reglu­lega síðan. Reyndar ekki á Ís­landi þar sem allt sem snertir fíkni­vanda virðist tengjast ein­hverjum krafta­verka­kenningum en ekki rann­sóknum eða stað­reyndum,“ segir Kristín í færslunni sem hún birti í gær.

Hún segir jafn­framt þar að ekki sé gott þegar hið opin­bera gefi slíkri starf­semi farar­leyfi. Það ýti undir að „alls­konar lukku­riddarar herji á skóla­börn með sínar gagns­lausu neyslu­sögur“.

Aðilar sem börnin þekki og treysti eigi að sjá um fræðslu og forvarnir

Hún segir að nú, sem hluti af á­takinu „Vaknaðu“ berist sögur af því að skólar hafi opnað dyr sínar fyrir mönnum sem séu búnir að vera edrú í að­eins nokkrar vikur, en vilji „bjarga börnunum með sögum sínum.“

Hún gagn­rýnir að fé sé fært úr verk­efnum sem fáist við ein­elti og gagn­reynda for­varnar­starf­semi inn í verk­efni sem séu fram­kvæmd af fólki sem ekki eru með kennslu­réttindi eða sér­þekkingu á for­vörnum.

„Mér finnst það al­gjört á­byrgðar­leysi af em­bættis­mönnum og stjórn­mála­mönnum að ýta undir þessar hug­myndir og vona að fólk fari að rakna úr rotinu.“

Kristín í­trekar að hennar gagn­rýni beinist að þátt­töku yfir­valda í for­vörnum sem ekki sé hægt að sýna fram á að virki.

„Mín gagn­rýni beinist að yfir­völdum. Eitt líf hefur vakið upp um­ræðu og staðan með ó­póíð­lyfin er al­var­leg, en það að fara með þetta inn í skóla er ekki í sam­ræmi við leið­beiningar land­læknis um for­varnir. Þar segir að þeir sem eru með börnunum dags­dag­lega eigi að sjá um það, ekki eigi að fá utan­að­komandi. Aðilar sem börnin þekki og treysti eigi að sjá um for­varnirnar og fræðsluna. Það er það sem ég er að reyna að benda á. Það eru til leið­beiningar, bæði á ís­lensku og ensku, um hvað séu góðir kennslu­hættir [e. best practice[ í for­vörnum og þetta er ekki í sam­ræmi við neinar slíkar leið­beiningar,“ segir Kristín að lokum.

Færslu Kristínar er hægt að sjá í heild sinni hér að neðan.