Kóróna­veirufar­aldurinn er á­fram í mikilli upp­sveiflu á Ind­landi en í gær greindist met­fjöldi smita þar í landi fimmta daginn í röð og er ekki hægt að sinna öllum sem þurfa læknis­að­stoð. Að sögn tals­manns Sir Ganga Ram spítalans í Nýju-Delí er um að ræða „öfga­krísu­á­stand.“

Alls greindust tæp­lega 353 þúsund manns með veiruna síðast­liðinn sólar­hring og voru rúm­lega 2.800 and­lát til­kynnt. Um það bil 1,3 milljarðar manna búa á Ind­landi en rúm­lega 17,3 milljón til­felli smits hafa nú verið stað­fest frá upp­hafi far­aldursins og rúm­lega 195 þúsund and­lát skráð, en talið er að raunverulegur fjöldi sé mun meiri.

Banda­ríkin, Bret­land, og Þýska­land hafa heitið því að veita Ind­verjum að­stoð svo hægt sé að sinna þeim sjúk­lingum sem þurfa á að­stoð að halda. Mikill skortur er nú á súr­efnis­birgðum og hafa fjöl­margir látist vegna súr­efnis­skorts. Sjúkra­hús í Nýju Delí og víðar eru nú að hruni komin og eru nær öll gjör­gæslu­rúm í notkun.

Greiða himinháar upphæðir fyrir lyf á svarta markaðinum

Sjúk­lingar hafa neyðst til að leita að­stoðar í heima­húsum og að því er kemur fram í frétt BBC hafa einnig margir snúið sér að svarta markaðinum í leit að nauð­syn­legum lyfjum og súr­efnis­birgðum sem hafa rokið upp í verði en í mörgum til­fellum er um vafa­söm lyf að ræða.

Ein kona sem BBC ræddi við greindi frá því að þegar tengda­faðir hennar fékk ekki inn­lögn á spítala hafi hún hvergi fundið súr­efnistank og hafi því snúið sér að svarta markaðinum þar sem hún greiddi rúmar 80 þúsund krónur fyrir. Sömu sögu er að segja víða annars staðar en fæstir eiga kost á því að greiða himin­háar upp­hæðir fyrir bráð­nauð­syn­leg lyf.

Lífshættuleg staða fyrir sjúklinga

Staðan á sjúkra­húsum landsins bitna þó ekki að­eins á þeim sem eru veikir vegna CO­VID-19 en löng bið bíður þeirra sem þurfa á læknis­að­stoð að halda af öðrum á­stæðum. Rann­sóknar­stofur eru einnig komnar að þol­mörkum og tekur það nokkra daga að fá niður­stöður úr rann­sóknum af ýmsu tagi eftir inn­lögn.

Stjórnvöld í Indlandi hafa nú gefið út tilmæli þar sem fram kemur að ekki allir sem sýkist af COVID-19 þurfi á spítalainnlögn að halda og hvatt sjúkrahús til að forgangsraða sjúklingum. Læknar segja að um lífs­hættu­lega stöðu sé að ræða fyrir marga sjúk­linga og að sögn eins læknis í Nýju Delí er óttast að „mikill harm­leikur“ gæti verið í nánd.