Tryggt hefur verið fjármagn fram á vor til að halda neyðarskýli opnu fyrir heimilislausar konur. Þetta kom fram í máli Regínu Ásvaldsdóttur, sviðstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.

Neyðarskýlið var opnað í apríl til að koma til móts við heimilis­lausar konur í Co­vid-19 far­aldrinum en til stóð að loka skýlinu í september. Konurnar sem fluttu í neyðar­úr­ræðið í apríl sendu í kjölfarið frá sér yfir­lýsingu þar sem þær mót­mæltu yfir­vofandi lokun. Ákveðið var um miðjan ágúst að framlengja rekstur úrræðisins. Úr­ræðið hafi veitt þeim öryggi sem þær hefðu ekki upp­lifað lengi og bætt líf þeirra til muna. Töluverð óvissa hefur þó ríkt um framtíð neyðarúrræðsins en það verður a.m.k opið fram á vor.

Regína Ásvaldsdóttir.

Regína segir jafnframt að Reykjavíkurborg, í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, hafi verið að bjóða konum sem hafi verið í þessu úrræði upp á fasta búsetu og muni halda því áfram fram eftir vetri.

„Við vonumst til þess að geta aðstoðað þær sem best þannig að það sé einhver tröppugangur. Skýlin eru auðvitað til staðar bæði fyrir konur og karla en þetta athvarf er betra vegna þess að þarna eru þær með sitt eigið herbergi. Við vonum að við getum boðið þeim upp á húsnæði með stuðningi. Það er verið að vinna í þessu máli núna."

Megi ekki fara á svig við persónuverndarlög

Í gær lýsti verkefnisstýra Frú Ragnheiðar í samtali vð Fréttablaðið, yfir þungum áhyggjum af rétti heimillausra til persónuverndar og friðhelgi einkalífs eftir umræðu á samfélagsmiðlum um heimilislausa einstaklinga í Hafnarfirði.

Aðspurð um réttindi heimilislausra á höfuðborgarsvæðinu segir Regína að það sé almennt álitaefni sem stöðugt þurfi að fara yfir. Hún segist hins vegar ekki þekkja til umræðunnar um einstaklinginn í Hafnarfirði. „Auðvitað þarf að bera virðingu fyrir fólkinu okkar eða fólkinu sem við erum að þjónusta og það má alls ekki fara á svig við persónuverndarlög gagnvart þeim né nokkrum öðrum hópi."

Færsla á íbúasíðu Hafnarfjarðar á Facebook vakti mikla athygli á mánudag en þar hafði einn íbúi birt mynd af dvalarstað heimilislauss manns. Fjöldi fólks skrifuðu ummæli við umrædda færslu, sem birtist á sunnudagskvöldinu, auk þess sem margir deildu henni þar sem upphafsaðilinn hafði spurt hvað væri hægt að gera fyrir manninn