Eins og fram hefur komið hafa rúmlega 400 manns þurft að fara í sóttkví eftir að einstaklingar greindust smitaðir af Covid-19 hér á landi í síðustu viku og um helgina.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, kallaði saman neyðarstjórn borgarinnar í morgun eftir nokkurt hlé.

Tilefni fundarins er að gera viðbragðsáætlanir vegna hópsýkingar Covid-19 á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er í sam­ræmi við viðbragðsáætlan­ir borg­ar­inn­ar og und­ir­strik­ar að taka þarf þá þróun sem birst hef­ur í frétt­um und­an­farið al­var­lega þótt hóp­sýk­ing þurfi í sjálfu sér ekki að koma á óvart,“ segir Dagur B. Eggertsson í færslu á Facebook.

Neyðar­stjórn vel­ferðarsviðs mun yfirfara og herða reglur til að vernda viðkvæma hópa, til dæmis heimsóknir á hjúkrunarheimili aldraðra.

Upplýsingum um málefni fundarins verður miðlað til starfsfólks og starfsstaða borgarinnar í dag þar sem minnt er á almennar einstaklingsbundnar smitvarnir og aðra aðgát, svo sem aukin þrif.

Þá hafa sérstakar leiðbeiningar og spurningalistar verið útbúnir vegna starfsfólks sem er að koma til vinnu erlendis frá, þannig að hægt sé að meta hvenær því er óhætt að mæta til vinnu.

„Reykjavíkurborg og yfirstjórn borgarinnar heldur stöðugt vöku sinni yfir ástandinu og metur það á hverjum tíma og grípur til þeirra aðgerða í samráði við almannavarnir, sóttvarnarlækni og á vettvangi neyðarstjórnar borgarinnar."