Neyðarstjórn Landsnets hefur lýst yfir óvissustigi vegna aftakaveðursins sem spáð er á landinu öllu á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti en neyðarstjórnin fundaði um stöðuna í morgun.
Líkt og fram hefur komið er appelsínugul viðvörun í gildi um allt land á morgun, föstudag. Ekkert ferðaveður er á landinu og er spáð aftakavindi og nokkuð ljóst að víðtækar samgöngutruflanir verða raunin.
Í tilkynningu Landsnets kemur fram að ákveðið hafi verið að virkja allar viðbragðsáætlanir. Hætta er á margháttuðum truflunum í flutningskerfinu vegna aftaka vinds af austri, þar sem ísing og selta geta einnig komið við sögu.
Búið er að greina hvaða svæði, línur og tengivirki verða mest útsett fyrir veðrinu. Landsnet vinnur að því í dag að færa til mannskap, manna ákveðin svæði og hafa samband við viðskiptavini og viðbragðsaðila.
Hætta er á truflunum á Suður-, Suðaustur- og Vesturlandi snemma í fyrramálið og fram yfir hádegi. Undir hádegi verður mikið vindálag á línum á Norður- og Austurlandi og á Vestfjörðum.
Fram kemur að Landsnet muni fylgjast vel með þróuninni í veðrinu og bregðast við eftir því sem þörf krefur. Fólk er hvatt til að fylgjast með tilkynningum frá Landsneti á heimasíðu Landsnets, Facebook og í Landsnetsappinu.