Neyðar­stjórn Lands­nets hefur lýst yfir ó­vissu­stigi vegna af­taka­veðursins sem spáð er á landinu öllu á morgun. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Lands­neti en neyðar­stjórnin fundaði um stöðuna í morgun.

Líkt og fram hefur komið er appel­sínu­gul við­vörun í gildi um allt land á morgun, föstu­dag. Ekkert ferða­veður er á landinu og er spáð af­taka­vindi og nokkuð ljóst að víð­tækar sam­göngu­truflanir verða raunin.

Í til­kynningu Lands­nets kemur fram að á­kveðið hafi verið að virkja allar við­bragðs­á­ætlanir. Hætta er á marg­háttuðum truflunum í flutnings­kerfinu vegna af­taka vinds af austri, þar sem ísing og selta geta einnig komið við sögu.

Búið er að greina hvaða svæði, línur og tengi­virki verða mest út­sett fyrir veðrinu. Lands­net vinnur að því í dag að færa til mann­skap, manna á­kveðin svæði og hafa sam­band við við­skipta­vini og við­bragðs­aðila.

Hætta er á truflunum á Suður-, Suð­austur- og Vestur­landi snemma í fyrra­málið og fram yfir há­degi. Undir há­degi verður mikið vind­á­lag á línum á Norður- og Austur­landi og á Vest­fjörðum.

Fram kemur að Lands­net muni fylgjast vel með þróuninni í veðrinu og bregðast við eftir því sem þörf krefur. Fólk er hvatt til að fylgjast með til­kynningum frá Lands­neti á heima­síðu Lands­nets, Face­book og í Lands­net­sappinu.