Ríkis­lög­reglu­stjóri lýsir yfir neyðar­stigi al­manna­varna í sam­ráði við sótt­varna­lækni vegna sýkinga af völdum CO­VID-19. Neyðar­stig tekur gildi á mið­nætti að­fara­nótt mánu­dagsins 5. októ­ber sam­hliða hertum sam­komu­tak­mörkunum.

Mikil fjölgun smita undan­farna daga auka líkur á veldis­vexti. Þetta kemur fram í til­kynningu frá ríkis­lög­reglu­stjóra.

„Frá 15. septem­ber til 4. októ­ber hafa um 630 ein­staklingar greinst með CO­VID-19 innan­lands. Jafn­framt hefur dag­legur fjöldi ný­greindra verið um 30-40 og hlut­fall þeirra sem er í sótt­kví verið um 50%. Fjöldi þeirra sem veikst hefur al­var­lega hefur aukist og hafa um 20 ein­staklingar þurft á sjúkra­hús­inn­lögn að halda. Í dag eru þrettán á sjúkra­húsi, þar af þrír á gjör­gæslu og tveir á öndunar­vél,“ segir i til­kynningu ríkis­lög­reglu­stjóra.

Sam­hliða hertum sam­komu­tak­mörkunum hefur verið á­kveðið að lýsa yfir neyðar­stigi al­manna­varna á öllu landinu. Það er gert meðal annars á grunni þess að sýkingin er til staðar í öllum lands­hlutum.

Virkjun neyðar­stigs hefur ekki teljandi á­hrif á al­menning um­fram hættu­stig sem varað hefur frá 25. maí.

Sótt­varna­læknir beinir því sér­stak­lega til þeirra sem teljast til við­kvæmra hópa, einkum þá sem eru með undir­liggjandi sjúk­dóma og eldri ein­stak­linga, að huga vel að sótt­vörnum og forðast manna­mót að ó­þörfu. Mjög á­ríðandi er að fólk fylgi leið­beiningum um ein­stak­lings­bundnar smit­varnir, virði sótt­kví og fylgi gildandi tak­mörkunum á sam­komum.