Um þúsund íslenskir læknar hafa skrifað undir áskorun til yfirvalda um að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu. Undirskriftalistinn var afhentur heilbrigðisráðuneytinu í morgun og funduðu fulltrúar lækna með Birgi Jakobssyni, aðstoðarmanni ráðherra, í tæpan klukkutíma.

„Við bjóðum til samstarfs til þess að leggja okkar lóð á vogarskálina til að leysa úr því sem á bjátar innan kerfisins,“ segir forsvarsmaður verkefnisins, Theódór Skúli Sigurðsson svæfingalæknir.

Theódór segir fundinn hafa gengið vel. Fulltrúar lækna og ráðuneytisins ræddu um helstu vandamál sem steðja að Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu almennt: skort á úrræðum í öldrunarþjónustu, fækkun legurýma, mönnunarvanda, samningsleysi og tregðu í samskiptum Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisyfirvalda við sjálfstæðar stofnanir, öryggi og mannorð heilbrigðisstarfsfólks vegna kerfislægra vanda og skort á faglegu samráði við lækna fyrir umfangsmiklar kerfisbreytingar.

„Á einhverjum tímapunkti verður læknirinn að horfa inn á við og átta sig á því að kannski er þögnin ekki að hjálpa.“

Segir hann Birgi hafa lofað að koma skilaboðunum áleiðis til heilbrigðisráðherrans Svandísar Svavarsdóttur.

„Við þurfum að vinna í átt að lausnum í stað þess að minna á vandamálin með reglulegu millibili,“ segir Theódór en hann vonast til þess að yfirvöld hætti að setja plástur yfir sárið og fari að vinna að varanlegum lausnum. Neyðarópin berast af bráðamóttöku og hver skýrslan af fætur annarri bendir á sama vandamálið en ár eftir ár standa læknar og hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn í sömu stöðu.

„Það er ekki vinsælt innan kerfisins að tjá sig og við viljum ekki skapa ótta að óþörfu en á einhverjum tímapunkti verður læknirinn að horfa inn á við og átta sig á því að kannski er þögnin ekki að hjálpa,“ segir Theódór.

„Ég hef ekki bara áhyggjur af sjúklingum heldur hef ég verulegar áhyggjur af starfsfólki sem er farið að bresta. Læknar eru manneskjur af holdi og blóði og það eru takmörk fyrir því hægt er að taka á sig.“

Ræddu ekki um sumarmönnun

Bráðalæknar hafa vakið athygli á grafalvarlegri stöðu á bráðamóttöku Landspítalans og alvarlega undirmönnun í sumar.

„Við viljum vinna vel, við viljum vera fagmenn, við viljum hafa öryggi sjúklinga númer eitt tvö og þrjú í þessu öllu saman. En æra starfsmanna og starfsleyfi til framtíðar liggur að veði, að ógleymdri hættunni sem við setjum sjúklinga í, sem er aðalatriðið,“ sagði Bergur Stefánsson, formaður félags bráðalækna, í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður segir Theódór að ráðuneytið hafi ekki rætt við þau um mönnunarvandann í sumar.

„Það hefur ekki komið til umræðu en ég hef ekki séð lausn á því,“ sagði Theódór í samtali við blaðamenn fyrir utan heilbrigðisráðuneytið í morgun. Vandamálið er „akút“ og þarf að leysa sem allra fyrst en Theódór hefur ekki fengið skýringar á því hvers vegna ekki sé búið að leysa vandann til frambúðar. Erfitt er að töfra fram mannskap í sumar að sögn Theódórs, þeir læknar sem ætla að leggja fram hjálparhönd á bráðamóttöku í sumar séu þegar í öðrum verkefnum og því önnum kafnir.

Fulltrúar lækna fyrir utan heilbrigðisráðuneytið í morgun að loknum fundi með Birgi Jakobssyni, aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra.
Fréttablaðið/Ingunn Lára

Einkageirinn réttir fram hjálparhönd

Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans, var einnig á svæðinu en hann fór yfir í einkageirann og starfar nú sem fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsuvernd.

„Við lögðum fram tilboð fyrir um þremur árum síðan, um að taka yfir þjónustu við 80 til 100 einstaklinga sem eru innan spítalans sem hafa lokið sjúkrahúsþjónustu en komast ekki aftur heim vegna hrumleika. Við erum að reyna að ná samningum við Sjúkratryggingar Íslands um að opna slíkt rými,“ segir Jón Magnús í samtali við Fréttablaðið. Aðspurður segir hann að slíkt rými myndi hafa jákvæð áhrif á spítalann, alveg gríðarlega mikil áhrif eins og hann orðar það.

„Grunnvandi spítalans liggur í málum þessa einstaklinga og að finna viðeigandi rými fyrir þá.“

Samningaviðræður eru í gangi milli Heilsuverndar og Sjúkratrygginga og vonar Jón Magnús að þeim ljúki í þessari viku eða næstu.