Jarðskjálfti sem mældist 7,8 að stærð og eftirskjálfti upp á 7,5 olli miklu mannfalli í Tyrklandi og Sýrlandi í gær.
Tala látinna í löndunum tveimur var sögð vera 3.000 manns síðdegis í gær, þar af voru um 1.500 dauðsföll í Tyrklandi og um 2.300 í Sýrlandi. Enn er leitað í rústum og búist er við að fjöldi látinna sé mun meiri.
„Við erum ekki nálægt því að hafa nægan mannskap til að takast á við slíkar hamfarir,“ sagði björgunarsveitarmaðurinn Ismail Alabdullah í símaviðtali við norska blaðið Verdens Gang.
„Við heyrum fólk hrópa innan úr rústunum,“ sagði Alabdullah.
Yasser Alhaji, sem starfar fyrir stjórnina á sjálfstjórnarsvæðinu í norðurhluta Aleppo í Sýrlandi, sagði við VG að þar vantaði tjöld, mat og tæki til að skera í gegn um stál og steypu.
„Ástandið er skelfilegt. Fólk er í sárri þörf fyrir hjálp. Við þurfum alþjóðlegar björgunarsveitir, lækningabúnað og færanlegar bráðamóttökur. Við höfum lýst yfir neyðarástandi í norðvesturhluta Sýrlands öllum.“

Kjörræðismaður segir Tyrki munu sigrast á hörmungum skjálftanna
Sélim Sariibrahimoglu, kjörræðismaður Íslands í Ankara, segir að það muni taka minnst tvo til þrjá daga áður en raunverulegt tjón af völdum jarðskjálftans verður ljóst.
Sariibrahimoglu segir að engir Íslendingar hafi hingað til haft samband en skyldi það gerast er ræðisskrifstofan tilbúin að veita aðstoð.
„Það hefur einn maður haft samband við okkur sem er giftur íslenskri konu. En fyrir utan það erum við undirbúin skyldi einhver hringja.“
Þá segir hann jarðskjálftann koma á mjög erfiðum tíma. Veturinn hefur verið mjög harður og ofan á það hafa margir íbúar í landinu búið við mjög erfiðar efnahagsaðstæður. Margir Tyrkir eru þrátt fyrir það að reyna að ferðast inn á svæðið í von um að bjarga ættingjum.
Sariibrahimoglu segir að ríkisstjórnin sé að gera sitt besta til að hjálpa og sérstaklega í ljósi þess að kosningar eru á næsta leiti og stjórnmálamenn reyni að vinna kjósendur á svæðinu á sitt band.
„Þó svo að þetta sé hörmulegur atburður þá held ég að samstaðan sem ríkir milli fólksins á svæðinu og fólksins úti um allt Tyrkland sé það sterk að Tyrkir muni sigrast á þessum hörmungum,“ segir Sariibrahimoglu.

Kapphlaup við tímann fyrstu sólarhringana
Íslenskur aðgerðastjóri segir ljóst að björgunarstarf í Tyrklandi muni taka marga mánuði – slík sé eyðileggingin og manntjónið.
„Fyrst um sinn er það auðvitað fólkið á staðnum, heimamenn, sem er að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Þarna er auðvitað ófremdarástand og algjör ringulreið,“ segir Ólafur Loftsson, aðgerðastjóri hjá Landsbjörg, sem er á útkallslista Sameinuðu þjóðanna og í viðbragðsstöðu vegna atburðanna í Tyrklandi.
„Þarna hafa há hús hrunið til grunna og eldar blossað upp víða. Við sjáum líka að það er kalt á þessum slóðum og næturfrost. Allt gerir þetta aðgerðir og fyrstu viðbrögð mjög erfið og flókin.“
Ólafur á allt eins von á því að vera kallaður út og sendur til Tyrklands innan tíðar. Þá sem hluti af svokallaðri annarri eða þriðju bylgju björgunaraðgerða.
„Það fer út ákveðið neyðarkall til alþjóðasamfélagsins í kjölfar svona atburða. Til rústabjörgunarsveita, lækna og í raun allra þeirra sem geta rétt fram hjálparhönd. Akkúrat núna er hins vegar verið að reyna að bjarga sem flestum mannslífum og þetta er kapphlaup við tímann fyrstu sólarhringana. Við gríðarlega krefjandi aðstæður,“ segir Ólafur.
Hann segir snarpa eftirskjálfta torvelda allt björgunarstarf á staðnum. Erfitt sé að gera sér í hugarlund hve umfangsmikið verkefni bíði björgunarsveita.
„Ef kallið kemur þá er maður auðvitað reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum. Manni rennur blóðið til skyldunnar við þessar skelfilegu aðstæður,“ segir Ólafur.
