Neyðar­lög tóku gildi á Sri Lanka klukkan hálf sjö í kvöld að ís­lenskum tíma, eða á miðnætti samkvæmt staðartíma, í kjöl­far sprengju­á­rása á átta mis­munandi kirkjur og hótel í gær, þar sem 290 manns létust og 500 manns særðust. Lögin veita lög­reglunni og hernum í landinu aukin völd til að hand­taka og yfir­heyra grunaða án dóms­úr­skurðar, að því er fram kemur á vef Reu­ters.

Yfir­völd telja að á­rásirnar hafi verið skipu­lagðar með stuðningi al­þjóð­legra hryðju­verka­sam­taka en líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá höfðu yfir­völdum borist við­varanir tveimur vikum fyrir á­rásirnar, með nöfnum þeirra sem þau telja nú að hafi staðið að baki á­rásunum.

Enn hefur enginn lýst yfir á­byrgð vegna á­rásanna en yfir­völd gruna her­ská sam­tök íslam­ista sem bera heitið National Thawheed Jama’ut. Sam­tökin hafa lýst yfir hatri í garð búddista. Sér­fræðingar segja þó nær úti­lokað að um­rædd sam­tök, sem ný­lega hafa verið stofnuð, hafi getað skipu­lagt svo víð­tækar á­rásir á eigin spýtur, án utan­að­komandi að­stoðar.

Talið er að um minnsta kosti sjö sjálfs­morðsprengjur hafi verið að ræða en rann­sókn málsins heldur á­fram og eru lög­reglu­yfir­völd von­góð um að neyðar­lögin muni flýta fyrir rann­sókn málsins. 24 manns voru hand­teknir í dag og var ein­göngu um að ræða ein­stak­linga frá Sri Lanka.

„Við teljum það frá­leitt að lítil sam­tök hefðu getað staðið að baki þessu. Við rann­sökum nú al­þjóð­legan stuðning við þá og aðrar mögu­legar tengingar, meðal annars hvernig þeir fóru að því að búa til sprengjurnar,“ segir Rajitha Senerat­ne, heil­brigðis­ráð­herra ríkis­stjórnarinnar og tals­maður.

For­seti Sri Lanka, Mait­hripala Sirisena, hefur nú þegar heitið því að yfir­völd þar í landi muni fara fram á al­þjóð­legan stuðning við rann­sókn málsins. Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, hringdi meðal annars í for­sætis­ráð­herra Sri Lanka í dag og hét því að banda­rísk yfir­völd myndu að­stoða við rann­sóknina eftir sem bestri getu.

Borgara­styrj­öld ríkti í Sri Lanka í ára­tugi milli Tamil­tígranna svo­kölluðu þar sem Hindúar voru í meiri­hluta en styrj­öldinni lauk fyrir 10 árum síðan með sigri ríkis­stjórnarinnar. Meiri­hluti íbúa í Sri Lanka eru búddistar en stærstu minni­hluta­hóparnir eru kristnir, múslímar og hindúar.