Hóp vinkvenna brá mikið í gær­kvöldi þegar þær gengu fram á tvær með­vitundar­lausar ungar stúlkur á Lauga­veginum. Tveir vinir stúlknanna stóðu yfir þeim að reyna að veita þeim að­stoð og höfðu þegar hringt á sjúkra­bíl. Þrátt fyrir í­trekuð sím­töl í neyðar­línuna, bæði frá vin­konu­hópnum og drengjunum, barst þó að þeirra sögn engin hjálp fyrr en einn lög­reglu­bíll mætti á staðinn um 25 mínútum seinna. Sjúkra­bíllinn kom svo ekki fyrr en lög­regla hafði sjálf kallað eftir honum.

„Þetta var alveg ömur­leg reynsla,“ segir Kristín Reynis­dóttir, kaup­maður og fyrrum kennari, ein fjögurra vin­kvenna sem gengu fram á stúlkurnar í gær­kvöldi. „Við héldum í al­vöru öll þarna að þær væru bara að deyja.“

Hún lýsir því í sam­tali við Frétta­blaðið hvernig stúlkurnar hafi hnigið niður í götuna á svipuðum tíma, að sögn vina þeirra, og að þær vin­konurnar hafi gengið fram á þær rétt eftir að þær hnigu niður. „Á­stand þeirra varð svo sí­fellt verra og augun voru ýmist starandi upp í loftið eða alveg lokuð. Þær sýndu engin við­brögð við nafna­kalli og voru báðar froðu­fellandi,“ segir hún. Þær hafi svo byrjað að kasta upp á sama tíma og önnur þeirra hafi kastað upp blóði.

Vinir stelpnanna voru búnir að hringja á sjúkra­bíl þegar vin­konurnar komu að staðnum. „Þetta var ungt fólk sem var af er­lendu bergi brotið og ég var hrædd um að þeir hefðu kannski ekki lýst á­standinu nógu vel fyrst vegna þess að þeir töluðu dálítið bjagaða ís­lensku. Það var þess vegna sem ég byrjaði að hringja líka á sjúkra­bíl, því ég var hrædd um að það hefði ein­fald­lega ekki verið tekið nógu mikið mark á þeim,“ segir Kristín.

Skellti bara á


Hún segir þá að sím­tal hennar hafi ekki skipt neinu: „Þessi í símanum segir mér að það sé lög­regla á leiðinni. Ég segi honum þá að þær þurfi ekki á lög­reglunni að halda, þær þurfi læknis­að­stoð. Þið verðið að senda sjúkra­bíl eins og skot, ég held þær séu að fara. Þá var bara skellt á mig,“ segir hún. „Svo hringir vin­kona mín líka og það var líka bara skellt á hana.“

Loksins, eftir um 25 mínútna bið, hafi einn lög­reglu­bíll svo mætt á svæðið og sá hafi ekki verið með sí­renurnar eða ljósin í gangi. „Ég held að þeim hafi bara mjög brugðið þegar þeir sáu á­standið á stelpunum og þeir hringdu strax á sjúkra­bíl. Þá kom hann bara á skikkan­legum tíma eftir smá stund.“

„Þetta finnst mér bara af­skap­lega ein­kenni­leg og í raun stór­hættu­leg vinnu­brögð hjá lög­reglu og sjúkra­starfs­mönnum,“ segir hún þá. „Ég hefði gjarnan viljað hafa það þannig að þegar almennur borgari hringir eftir sjúkrabíl að þá sé tekið mark á manni.“

Hún kveðst ekkert vita frekar um hvernig fór fyrir stúlkunum; hvernig líðan þeirra sé nú eða hvað hafi amað að þeim. Vinir þeirra sögðu þær hafa verið að drekka fyrr um kvöldið. „Ég talaði við vin þeirra sem sagði mér að þær hafi bara verið búnar að drekka smá en hefðu farið inn á klósett saman og hugsan­lega tekið eitt­hvað þar. Hann var samt ekki viss.“

Kristín segist hafa heyrt af því að mjög hættu­leg heima­til­búin efni séu í um­ferð í landinu eftir að því var því sem næst lokað. Henni dettur helst í hug að þær hafi þannig tekið eitt­hvað eða þeim hafi verið byrlað.

Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar.