Sameiginleg rafræn gátt vegna ofbeldis fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur, 112.is, sem opnuð var formlega í október, býður nú upp á allar upplýsingar á ensku og pólsku.

Í tilkynningu frá Neyðarlínunni kemur fram að þörfin fyrir slíkt upplýsingatorg hafi aldrei verið meiri en í miðjum COVID-19 faraldri. Auk þess komi yfirleitt fram aukið álag í kringum hátíðar sem valdi spennu og síðar ofbeldi á heimilum.

„Vefurinn 112.is er allsherjar upplýsingatorg um allt sem við kemur ofbeldi, ásamt því að opnað er á beint samtal við neyðarverði í netspjalli 112. Með sameiginlegri rafrænni gátt vegna ofbeldis er allt ferli sem miðar að aðstoð einfaldað, upplýsingar um hvað ofbeldi er gerðar aðgengilegar og boðið upp á úrræði til lausnar. Vefurinn er enn í þróun og sífellt bætist við af nýju efni inn á hann,“ segir í tilkynningu.

Heimilisofbeldi of algengt

„Heimilisofbeldi er alls konar og er því miður allt of algengt, jafnvel hér á Íslandi. Heimilisofbeldi er ekki bara líkamlegt ofbeldi, því það getur líka verið andlegt, en sama hvernig það birtist okkur, þá er það óásættanlegt. Ég hvet alla þá sem upplifa ofbeldi með einum eða öðrum hætti, beint eða óbeint, að leita upplýsinga og aðstoðar á vefsíðunni 112.is,“ segir frú Eliza Reid, forsetafrú, í tilkynningu en hún opnaði enska og pólska hlutann formlega. Hún segir mikla þörf fyrir slíka gátt, ekki bara fyrir þá sem tala íslensku.

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands, tekur í sama streng.

„Ég fagna tilkomu 112.is. Það er bráðnauðsynlegt að hafa einn vettvang þar sem afla má upplýsinga fyrir brotaþola ofbeldis í nánum samböndum. Það er einkar mikilvægt að síðan sé aðgengileg á ensku og pólsku og æskilega fleiri tungumálum, svo brotaþolar ofbeldis sem ekki lesa íslensku geti einnig fundið upplýsingar um hvar þeir geti leitað sér hjálpar og ráðgjafar,“ segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands, í tilkynningu Neyðarlínunnar.

Hin rafræna gátt 112 um ofbeldi er ein af megintillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra skipuðu til að stýra og samræma aðgerðir gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Teyminu er stýrt af Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra og Eygló Harðardóttur. Jafnframt hefur Neyðarlínunni verið falið að skipuleggja vitundarvakningu um ofbeldi í samfélaginu þar sem fólk er hvatt til að segja frá ofbeldi og leita aðstoðar hjá 112.