„Ég er búinn að skoða þetta í díteil og ég get ekki annað séð en að þetta hafi farið eins og því var ætlað að fara,“ segir Tómas Gísla­son, að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri Neyðar­línunnar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Síðast­liðið laugar­dags­kvöld barst út­kall um tvær ungar konur sem hnigu með­vitundar­lausar niður á Lauga­veginum. Lýsti ein þeirra sem gekk fram á konurnar því svo að lög­regla hafi komið allt of seint á staðinn og Neyðar­línan skellt á þau þegar þau í­trekuðu að þörf væri á sjúkra­bíl.

Sagði hún að það hefðu liðið um 25 mínútur frá því að þær hringdu í Neyðar­línuna og þar til lög­regla mætti á svæðið. Tómas segir það ekki rétt.


Hann segir að lög­regla hafi verið mætt á svæðið alla­vega 9 mínútum eftir að fyrsta út­kall barst en sjúkra­bíll verið kominn á svæðið 13 mínútum eftir fyrsta sím­tal í Neyðar­línuna. Bætir Tómas við að eðli­legt sé að fólk í upp­námi sem lendi í svona að­stæðum upp­lifi tímann mjög skringi­lega.

Mikið álag á línunni


Tómas segir að mikið álag hafi verið á þeim sem svaraði í símann, 44 sím­töl bárust Neyðar­línunni á þessum klukku­tíma, en að starfs­maðurinn hafi kannski verið full­stuttur í spuna í sím­tölunum. Hann segir að það hefði mátt upp­lýsa þá sem hringdu betur um það að sjúkra­bíll væri á leiðinni fyrir konurnar tvær.


Konan segir að skellt hafi verið á sig. „Þessi í símanum segir mér að það sé lög­regla á leiðinni. Ég segi honum þá að þær þurfi ekki á lög­­reglunni að halda, þær þurfi læknis­að­­stoð. Þið verðið að senda sjúkra­bíl eins og skot, ég held þær séu að fara. Þá var bara skellt á mig. Svo hringir vin­­kona mín líka og það var líka bara skellt á hana.“ Svona lýsti konan sam­skiptunum við Neyðar­línuna í sam­tali við Frétta­blaðið degi eftir at­vikið.


„Jú, hann skellir á en á þeim tíma­punkti er lög­regla mætt á staðinn og það eru tveir sjúkra­bílar farnir af stað. En auð­vitað hefði hann getað sagt henni að sjúkra­bíllinn væri farinn,“ segir Tómas um sam­skiptin. „Ég mun fara yfir það með mínu fólki og brýna fyrir því kurteisi því jú, jú, við getum alveg haft rétt fyrir okkur en verðum samt að átta okkur á því að fólkið hinum megin línunnar er í upp­námi.“


„En það að lög­regla hafi dólað sér á staðinn á 25 mínútum er bara rangt,“ segir hann. „Það er náttúru­lega af­leiðing af því að vera í upp­námi að upp­lifa allt rosa­lega hægt.“ Hann segir að þegar fyrsta sím­tal í Neyðar­línuna barst klukkan 23:28 hafi það verið gefið yfir til lög­reglu. Við­mælendur hafi þá verið spurðir spurninga um að­stæður og miðað við upp­lýsingarnar þá hafi verið talið eðli­legt að senda sjúkra­bíl.

Nokkuð eðlileg tímalína


Um fimm mínútum síðar, klukkan 23:33, hafi þeim borist sím­tal þar sem var til­kynnt að þörf væri á endur­lífgun. Tveimur mínútum síðar, klukkan 23:35 hafi þá tveir sjúkra­bílar verið sendir í hæsta for­gangi. Lög­reglan var mætt á vett­vang klukkan 23:37 að hans sögn og sá þá að stelpurnar sýndu við­brögð og var því hætt við endur­lífgun.


Fyrsti sjúkra­bíll var þá mættur klukkan 23:41, annar bíll klukkan 23:48 og sá þriðji mínútu síðar. Sjúkra­bílarnir sem fluttu konurnar á bráða­mót­töku hafi þá verið mættar þangað klukkan 23:54 og 00:02. „Frá því að fyrsta sím­tal kemur og þar til þeir eru báðar komnar á bráða­mót­töku er því rétt um hálf­tími, sem er held ég bara nokkuð eðli­legur tími,“ segir hann.