Ferða­sumarið er nú komið á fullt og gerir fólk sig klárt í að leggja land undir fót og skella sér á hinu ýmsu úti­legur og bæjar­há­tíðir. Að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri Neyðar­línunnar segir að á­lagið sé mikið á þessum tíma árs og biðlar hann til fólks að sýna ábyrgð.

„Það hefur verið þannig að fyrsta helgin í júlí er að verða jafn­vel stærri en verslunar­manna­helgin. Allt í einu eru allir að fá þörf fyrir að fara í úti­legu og fara á staði sem eru margir hverjir ekki með neinn við­búnað. Þá reynir mikið á okkur,“ segir Tómas Gísla­son, að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri Neyðar­línunnar.

Neyðar­línan, dóms­mála­ráðu­neytið og ríkis­lög­reglu­stjóri fóru ný­verið á stað með sam­eigin­lega á­takið „Góða skemmtun“. Með á­takinu er verið að minna al­menning á að það sé ætíð hægt að leita að­stoðar hjá Neyðar­línunni og hvetja um leið til sam­stöðu gegn of­beldi á bæjar- og úti­há­tíðum landsins í sumar.

Biður fólk um að sýna ábyrgð og vera vakandi fyrir ofbeldi

Tómas segir að það sé alls­kyns álag á Neyðar­línunni um sumar­tímann.

„Á­lagið er meira en um venju­lega helgi um vetur. Flest eru þetta stimpingar og vit­leysa í fólki hér og þar um landið og oft veit það illa hvar það er statt. Þannig það er alls­kyns álag á okkur,“ segir Tómas.

„Á venju­legum dögum erum við að fá að jafnaði 500 sím­töl. Um kvöldið á stórum hátíðum getum við auð­veld­lega farið í 500 sím­töl á nokkrum klukkutímum í kringum mið­nætti, sem er dag­skammturinn á ör­stuttum tíma,“ segir Tómas.

Hann biður fólk um að vera vakandi gegn alls­kyns of­beldi

„Svona stórar ferða­helgar eru eril­samar, þannig verum á­byrg fyrir okkur sjálfum og sam­borgurunum. Höldum með­vitund og sýnum á­byrgð.“