Ferðasumarið er nú komið á fullt og gerir fólk sig klárt í að leggja land undir fót og skella sér á hinu ýmsu útilegur og bæjarhátíðir. Aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir að álagið sé mikið á þessum tíma árs og biðlar hann til fólks að sýna ábyrgð.
„Það hefur verið þannig að fyrsta helgin í júlí er að verða jafnvel stærri en verslunarmannahelgin. Allt í einu eru allir að fá þörf fyrir að fara í útilegu og fara á staði sem eru margir hverjir ekki með neinn viðbúnað. Þá reynir mikið á okkur,“ segir Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Neyðarlínan, dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóri fóru nýverið á stað með sameiginlega átakið „Góða skemmtun“. Með átakinu er verið að minna almenning á að það sé ætíð hægt að leita aðstoðar hjá Neyðarlínunni og hvetja um leið til samstöðu gegn ofbeldi á bæjar- og útihátíðum landsins í sumar.
Biður fólk um að sýna ábyrgð og vera vakandi fyrir ofbeldi
Tómas segir að það sé allskyns álag á Neyðarlínunni um sumartímann.
„Álagið er meira en um venjulega helgi um vetur. Flest eru þetta stimpingar og vitleysa í fólki hér og þar um landið og oft veit það illa hvar það er statt. Þannig það er allskyns álag á okkur,“ segir Tómas.
„Á venjulegum dögum erum við að fá að jafnaði 500 símtöl. Um kvöldið á stórum hátíðum getum við auðveldlega farið í 500 símtöl á nokkrum klukkutímum í kringum miðnætti, sem er dagskammturinn á örstuttum tíma,“ segir Tómas.
Hann biður fólk um að vera vakandi gegn allskyns ofbeldi
„Svona stórar ferðahelgar eru erilsamar, þannig verum ábyrg fyrir okkur sjálfum og samborgurunum. Höldum meðvitund og sýnum ábyrgð.“