Samkvæmt nýrri könnun IIHS í Bandaríkjunum hefur neyðarhemlun bíla sín takmörk, þótt hún virki vel í flestum tilvikum. Í fyrri könnunum hefur komið fram að bíla með neyðarhemlun (AEB) lenda í 50% færri aftanákeyrslum. Einnig virðist neyðarhemlun virka vel gagnvart fótgangandi en bílar með neyðarhemlun lenda í 27% færri óhöppum þar sem um er að ræða gangandi vegfarendur. Samkvæmt nýrri könnun AAA í Bandaríkjunum virðist þó sem slæm birtuskilyrði og meiri hraði hafi áhrif á getu slíkra kerfa. AAA framkvæmdi árekstrarpróf á meiri hraða en IIHS gerir í sínum prófunum, vegna þess að flestar aftanákeyrslur verða á stöðum með 50-70 km hámarkshraða. IIHS prófar neyðarhemlun við aftanákeyrslu á 40 km hraða en AAA jók hraðann upp í 50–70 km. Notast var við algenga bíla eins og Toyota RAV4, Ford Explorer og Honda CR-V.

Við prófun á 50 km hraða gátu allir bílarnir stöðvað eða hægt verulega á sér, þó að Honda-jepplingurinn hefði reyndar tvisvar ekið á prófunarbílinn á 30 km hraða. Við prófun á 70 km hraða lentu allir bílarnir í árekstri en með mismunandi niðurstöðum. Ford Explorer lenti aftan á í öllum fimm prófununum en náði að minnka hraðann niður í 20 km á klst. Honda CR-V stóð sig betur á meiri hraða og slapp tvisvar við árekstur en hægði einnig vel á sér í hinum tilfellunum. Toyota RAV4 náði að stoppa í fjögur skipti án þess að til árekstrar kæmi en lenti samt einu sinni í aftanákeyrslu og það á 60 km hraða. Bílafyrirtækin eru flest að þróa tækni sem mun bæta þessar niðurstöður en neyðarhemlun er samt ennþá að slíta barnsskónum ef marka má þessar niðurstöður.