Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Moore sýslu í Norður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum eftir að skotárás sem beindist að orkuverki í sýslunni olli rafmagnsleysi á stóru svæði.

Árásirnar áttu sér stað síðustu helgi en skotið var á tvær undirstöðvar orkuvers í eigu fyrirtækisins Duke Energy og í kjölfarið hafi 45 þúsund manns misst rafmagn á heimilum sínum.

Að sögn lögreglu keyrðu árásarmennirnir í gegnum hlið sem stóð við orkustöðina og hófu skothríð sem olli miklum skaða á orkuinnviðum sem bendir til að árásarmennirnir hafi vitað nákvæmlega með hvaða hætti væri best að skaða stöðvarnar.

Margir spítalar eru án rafmagns í Moore-sýslu.
Mynd/getty

Ekkert hefur verið gefið út um tilefni árásarinnar en hún er til rannsóknar hjá lögreglu á svæðinu. Ef hefur enn verið gefið út hvort um hryðjuverk er að ræða.

Talsmaður Duke Energy, sem rekur orkustöðvarnar, sagði á mánudag að búið væri að koma aftur á rafmagni fyrir um 7 þúsund manns en 38 þúsund eru enn án rafmagns. Duke Energy hefur gefið út yfirlýsingu um að skaðinn á undirstöðvum orkuversins sé slíkur að hefðbundnar viðgerðir nægi ekki til þess að koma orku aftur á og að í raun verði að endurbyggja stöðvarnar.

Rafmagnsleysið hefur, meðal annars, valdið því að frárennslisdælur hættu að virka og hefur skólum á svæðinu verið lokað. Einnig hafa neyðarskýli verið opnuð fyrir almenning.

Sett hefur verið á útgöngubann á milli níu á kvöldin og fimm á morgnanna og hafa íbúar í Moore sýslu verið hvattir til þess að spara eldsneyti sitt.

Ritari Heimavarnardeildar Bandaríkjanna, Alejandro Mayorkas gaf út tilkynningu á mánudag sem sagði að árásirnar virtust hafa verið framdar af yfirlögðu ráði sem bendi til hryðjuverks.

Roy Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínu fylkis gaf út yfirlýsingu þar sem hann kallaði árásina „glæpsamlegt athæfi“.

„Þetta eru árásir af yfirlögðu ráði sem valdið hafa fólki skaða,“ sagði Cooper en engin samtök eða hópar hafa tekið ábyrgð á verknaðinum.