Hluti þeirra úkraínskra barna sem hafa komið til Ís­lands á flótta mun ekki komast að í grunn­skóla í haust ef ekki verður brugðist við strax. Sveinn Rúnar Sigurðs­son, læknir sem hefur starfað með sam­tökunum Flotta­folk á Ís­landi, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann hafi á­hyggjur af stöðunni og sér­stak­lega ef að flótta­fólki fjölgar enn frekar og þær spár sem hafa verið lagðar fram um að hingað leiti fjögur þúsund manns raun­gerist.

Hann segir að vanda­málið sé í raun tví­þætt. Fólk hafi átt í vand­ræðum með að finna hús­næði á höfuð­borgar­svæðinu og sé því enn skráð í skamm­tíma­úr­ræði á vegum yfir­valda. Þegar fólk er í slíku úr­ræði er það ekki með fasta bú­setu og sam­kvæmt reglum eiga börnin þá ekki mögu­leika á að skrá sig í skóla.

„Börn sem ekki hafa fasta bú­setu hér eiga ekki tryggt sæti innan skóla­kerfisins og þegar að hús­næði í boði er orðið stærsti flösku­hálsinn þá stækkar þessi hópur sem ekki kemst í skóla að sama skapi. Það hefur þær af­leiðingar að for­eldra þeirra, sem hafa ekki þurft að leita lengi að at­vinnu, geta ekki lengur starfað með til­heyrandi kostnaði fyrir sam­fé­lagið,“ segir Sveinn og að fyrst og fremst sé um að ræða grunn­skóla­börn en að hann hafi heyrt um það sama hjá börnum á öðrum skóla­stigum.

„Þessi börn eru búin að missa hálft ár úr skóla og ef þau missa annað ár úr skóla, ofan á Co­vid sem hafði á­hrif á skóla­gönguna í þeirra eigin heima­landi, þá er ljóst að fyrir mörg börn mun þetta hafa varan­leg og að öllum líkindum mjög slæm á­hrif,“ segir Sveinn.

Þessi börn eru búin að missa hálft ár úr skóla og ef þau missa annað ár úr skóla, ofan á Co­vid sem hafði á­hrif á skóla­gönguna í þeirra eigin heima­landi, þá er ljóst að fyrir mörg börn mun þetta hafa varan­leg og að öllum líkindum mjög slæm á­hrif

Hann segir að sam­tök hans hafi frá því í vor rekið at­hvarf fyrir for­eldra og börn í Há­túni þar sem börn á leik­skóla­aldri hafa getað fengið at­hvarf og mat yfir daginn en segir að hús­næðið sé mjög þétt­setið.

„Við erum líka með kennslu­stofur þar sem fólk á efri skóla­stigum hefur getað sinn fjar­námi en það mun heldur ekki hrökkva til lengri tíma,“ segir Sveinn.

Vandræði við að finna húsnæði

Hann segir að sam­hliða þessu sé að skapast neyðar­á­stand hvað varðar bú­setu­úr­ræði og að fólk hafi verið í veru­legum vand­ræðum með að finna sér fasta bú­setu.

„Mjög margir eru enn í skamm­tíma­hús­næði vegna skorts á hús­næði, þrátt fyrir mikla leit og jafn­vel kaup­getu þá fær fólk ekki neitt,“ segir Sveinn.

Hann segir að þessi vanda­mál haldist hendur og að af­leiðingin verði sú að það sem hefur hingað til ekki verið vanda­mál, at­vinna fólksins, verði það því fólk mun ekki komast í vinnuna.

„Fólk mun ekki geta nýtt sér þá at­vinnu sem það hefur ef það er fast heima með börn,“ segir Sveinn og bendir um leið á að því geti fylgt kostnaður

Rekið hefur verið dagvistunarúrræði fyrir börn frá Úkraínu í Hátúni frá því í vor. Það er þéttsetið segir Sveinn.
Fréttablaðið/Valli

Verði að finna lausn

Hann segir að hann hafi verið í sam­bandi við borgina og ráðu­neytið og að það sé unnið að því að finna lausn á vandanum og telur að það þurfi allir að leggjast á eitt til að leysa þetta áður en skólarnir hefjast í næstu viku.

„Þetta má ekki vera eitt­hvað „compu­ter says no“ mál gagn­vart þessum börnum sem hingað eru komin.“

Snýst þetta um að koma þessum börnum að í sínum hverfis­skóla eða í sér­skóla?

„Málið snýst um að koma þessum börnum í skóla, sama hvar, og þegar fjöl­skyldan fær hús­næði og þau flytja þá verður hægt að finna út úr því með þeim hverfis­skóla sem um ræðir, en núna þarf bara að koma þeim í nám. Það fer ekkert barn ó­skaddað frá tæp­lega fjögurra ára á­föllum tengt þeirra skóla­göngu. Það vegur þungt og það verður að leysa þetta,“ segir Sveinn.

Hann segir að honum þyki hið opin­bera hafa staðið sig vel en telur að ef ekki verður brugðist við þá geti skapast neyðar­á­stand.

Börn eigi rétt á skólagöngu

Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri skóla- og frí­stunda­sviðs hjá Reykja­víkur­borg, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þau börn sem séu á grunn­skóla­aldri eigi rétt á skóla­göngu en hafði ekki upp­lýsingar um það hvernig hefði gengið að inn­rita börn í þeirra hverfis­skóla.

„Þetta er tölu­verður hópur og það þarf að vanda mót­tökuna,“ segir Helgi.

Hann segir að ráðinn hafi verið svo­kallaðar brúar­smiður sem eigi að að­stoða við að­lögun barnanna í skóla­um­hverfið en svo sé hver skóli með sína eigin mót­töku­á­ætlun.