Vegna verkfalls flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni blasir við að þyrlufloti Landhelgisgæslunnar stöðvist á næstu dögum. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að um miðja næstu viku þurfi að fara fram reglubundin skoðun á einu starfhæfu þyrlu stofnunarinnar og muni því starfsemi að fullu stöðvast.
Hin þyrla gæslunnar hefur ekki verið til taks frá því að verkfallið hófst þann 5. nóvember þar sem vinna við skoðun sem þarf að fara á henni hefur legið niðri í verkfallinu.
„Neyðarástand skapast í síðasta lagi um miðja næstu viku þegar þyrlan stöðvast en hafa verður í huga að þyrlan getur stöðvast fyrr vegna óvæntra bilana. Engin björgunarþyrla verður þá til taks á landinu sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér,“ segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Úrræðu á þrotum
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir úrræði Landhelgisgæslunnar senn vera á þrotum.
„Á stjórnendum Landhelgisgæslunnar hvílir rík skylda til að halda órofnum rekstri öryggis- og björgunartækja stofnunarinnar. Undanfarna daga höfum leitað allra leiða til að tryggja björgunargetu Landhelgisgæslu Íslands svo hægt sé að sinna neyðarútköllum. Það skiptir þjóðina máli að Landhelgisgæslan hafi björgunarþyrlur til taks ef vá ber að garði. Það er erfitt að hugsa þá hugsun til enda ef mannskaði verður vegna þessa.“
Georg segir að það verði að hafa í huga að Landhelgisgæslan sé ekki sjálf aðili að umræddri deilu heldur sé hún á milli Flugvirkjafélags Íslands og samninganefndar ríkisins fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra.
„Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að tryggja að hægt sé að bregðast við neyðartilfellum sem upp koma. Ástandið er þegar orðið grafalvarlegt en ljóst er að neyðarástand mun ríkja í næstu viku þegar engin þyrla verður til taks,“ segir Georg í tilkynningunni.
Undanþágubeiðnum ítrekað hafnað
Þar segir einnig að vinna við viðhaldsskipulagningu hafi legið niður í verkfallinu. Það hafi áhrif á undirbúning skoðana, eftirlit og frágang viðhaldsganga.
Ítrekuðum undanþágubeiðnum frá verkfalli vegna viðhaldsskipulagningar hefur verið hafnað af Flugvirkjafélagi Íslands.
Segir að það verði þó að hafa í huga að þótt það fengist undanþága yrði það aðeins til að halda úti algerri lágmarksneyðarþjónustu.
„Eftir sem áður þá blasir nú þegar við að ekki verður alltaf tiltæk björgunarþyrla og áhrifa verkfallsins mun gæta fram á næsta ár hvað varðar björgunarþjónustu LHG,“ segir í tilkynningunni.
Hafi áhrif í vikur eða mánuði
Segir að auk stöðvunar þyrluflotans muni verkfallið hafa önnur áhrif næstu vikur og mánuði. Takmörkuð viðhaldsvinna hafi farið fram síðustu tvær vikurnar á þyrlunum TF-EIR og TF-LIF vegna verkfallsins. Auk þess sem þetta ástand muni koma til með að seinka innleiðingu á leiguþyrlu sem er væntanleg í janúar. Þá er eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar óflughæf sem og flugvél Isavia sem gæslan sinnir einnig viðhaldi á.
Verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hefur staðið yfir frá 5. nóvember. Landhelgisgæslan hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja lágmarks neyðarþjónustu og halda TF-GRO í flughæfu ástandi. Verkefnum og æfingum hefur verið frestað til að unnt sé að bregðast við neyðartilfellum en ljóst er að slíkt ástand getur ekki varað lengi. Áhafnir fylgja stífri æfingaráætlun í hverri viku sem nú hefur verið dregið verulega úr, þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir björgunargetu deildarinnar.