Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hyggst ekki setja New York fylki allt í sótt­kví eins og hann hafði áður sagst vilja gera. Þetta til­kynnti hann á Twitter ígær eftir að hafa ráð­fært sig við sótt­varnar­embættið og fylkis­stjóra New York, New Jer­s­ey og Connecticut.


Strangar ferða­við­varanir verða þó gefnar út en fylkin verða ekki sett í sótt­kví. Kóróna­veiran smitast hratt í austur­hluta Banda­ríkjanna en alls hafa yfir 120 þúsund smit greinst í Banda­ríkjunum, þar af 53 þúsund í New York. Yfir tvö þúsund hafa látist af völdum veirunnar í landinu.

Trump sagði við fjölmiðla snemma í gær að hann í­hugaði að setja New York fylkið allt í sótt­kví á­samt hlutum New Jer­s­ey og Connecticut til þess að ná stjórn á út­breiðslu veirunnar í landinu. Fylkis­stjóri New York, Andrew Cu­omo, tók afar illa í þessi um­mæli for­setans og sagði þau jafn­gilda stríðs­yfir­lýsingu ríkisins gegn fylkjunum.


„Þetta yrði ekki sótt­kví heldur út­göngu­bann,“ sagði hann í sam­tali við er­lenda fjöl­miðla. „Ég held að þetta yrði ekki einu sinni lög­legt.“ Hann sagði þá að bann á borð við þetta myndi al­ger­lega lama allt ríkið og efna­hag þess.


Trump átti svo fundi með fylkis­stjórunum og sótt­varnar­embætti Banda­ríkjanna sem ráð­lögðu honum öll frá því að setja þessa hluta landsins í sótt­kví. Hann hefur þá ráðist í stærstu efna­hags­að­gerð í sögu Banda­ríkjanna vegna far­aldursins en hann skrifaði á föstu­daginn undir frum­varp um tvö þúsund milljarða Banda­ríkja­dala fram­lag til efna­hags­kerfisins í landinu.