Samkvæmt nýjum tölum Evrópusambandsins versla 85 prósent Íslendinga á netinu. Þetta er aukning um 10 prósent á þremur árum og 30 prósent á áratug en árið 2012 mældist hlutfallið aðeins 54 prósent hjá þeim sem höfðu keypt vöru eða þjónustu á undanförnum tólf mánuðum.

Ekki eru til nákvæmar tölur um hvaðan Íslendingar versla á netinu en líkt og almenn netverslun hefur verið að aukast hefur netverslun við önnur lönd einnig gert það. Árið 2019 höfðu til að mynda 52 prósent Íslendinga keypt vörur eða þjónustu frá öðrum ESB- eða EES-ríkjum samanborið við aðeins 24 prósent árið 2012.

Stór hluti landsmanna notar netið til þess að kaupa flugmiða og gistingu. Árið 2019 gerðu 60 prósent landsmanna það samanborið við 39 prósent árið 2012.

Ísland er nú í sjötta sæti álfunnar þegar kemur að netverslun. Norðmenn eru í efsta sæti en 92 prósent þeirra versla á netinu. Þá koma Danir, Hollendingar, Írar og Svíar. Albanar reka lestina með aðeins 17 prósent. Almennt er hlutfallið mun lægra í austur- og suðurhluta álfunnar.