Háðsglósur og skammir í garð þingmannanna Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar eru áberandi á samfélagsmiðlum í dag, eftir að þeir létu þau boð út ganga að þeir væru gengnir til liðs við Miðflokkinn.

„Þetta er næstum því aðdáanlega ómerkilegt!“ skrifar rithöfundurinn Illugi Jökulsson á Facebook við nokkuð góðar undirtektir, 21 athugasemd og 94 „læk“.

Annar rithöfundur, Guðmundur Brynjólfsson, beintengir hrókeringuna við Klaustursmálið sem markaði upphaf pólitískra búferlaflutninga þingmannanna: „Marga bommertuna hefur maður gert á fyllirí og stundum hafa eftirköstin verið slæm - þegar maður hefur leyft þeim að komast að. En að haga sér eins í þynnkunni og þegar maður var dúndrandi fullur - það hef ég aldrei prófað, enda virðist það skelfilegt ráðslag. Eins og sjá má.“

Ásgeir H Ingólfsson, menningarrýnir, horfir einnig til Klausturs og skrifar: „Var svo Bára bara á vegum Sigmundar Davíðs eftir allt saman?“

Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og samfélagsrýnir, lætur tíðindi dagsins ekki koma sér á óvart: „Jæja, rætist þá ein ástæða Klausturfundarins. Þetta var viðbúið.“

Björn Birgisson, eldri borgari í Grindavík, er hvass í sinni Facebook-færslu: „Rökrétt. Allir Klaustursdónarnir í einum flokki. Sækjast sér um líkir og allt það! Sigmundur Davíð borgar þá drykkina næst - verðið hefur varla verið mikið hærra!“

Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, er hugsi en horfir á björtu hliðarnar: „Nú eru allir Klaustursþingmenn Miðflokksþingmenn. Það einfaldar lífið. #björtuhliðarnar.“

Halldór Auðar fer síðan í dýpri pælingar í stuðningshópnum Takk Bára á Facebook: „Fórnarlömbin í Miðflokknum sem eru að veitast að Báru með öllum vopnum sem þau hafa í sínu vopnabúri eru það mikil fórnarlömb þessa máls að þau eru að græða tvo þingmenn. Enginn fer, tveir nýir kallar koma inn. Allir Klaustursþingmenn eru núna Miðflokksþingmenn.

Fulltrúar Miðflokksins bera alla ábyrgð á því hvernig fylgjendur hans hafa veist að Báru á opinberum vettvangi, í kommentakerfum og annars staðar. Þeir gáfu skotleyfi á hana og eftir höfðinu dansa limirnir. Árásirnar á hana eru liður í baráttu þeirra til að halda sínum völdum og áhrifum, sama hvað. Gefa ekkert eftir heldur gefa bara í. Yfirlýsingar um iðrun og yfirbót eru merkingarlausar því hegðunin er í engu samræmi við þær. Á meðan er haldið áfram skinhelgu bulli um að allt sé þetta gert fyrir lítilmagnann, öryrkja og aldraðra. Svei.“

Fjölmiðlamaðurinn og stjórnmálaskýrandinn Egill Helgason fylgir greiningu sinni á þessum nýjustu vendingum úr hlaði með þessum  orðum: „Þessa var ekki langt að bíða. Og nú birtist möguleiki á þriggja flokka ríkisstjórn.“

Sá talnaglöggi sósíalisti Gunnar Smári Egilsson vindur sér í prósentureikning: „Í þingflokki Miðflokksins situr ein kona, Anna Kolbrún Árnadóttir. Með henni eru átta karlar: Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson. Nú hefur flokkurinn þingmann í hverju kjördæmi, einn í hverju þéttbýliskjördæmi og tvo í hverju landsbyggðarkjördæmi. Til að halda þessum þingmannafjöldi þyrfti flokkurinn að fá um 13-14% fylgi í kosningum. Flokkurinn mælist nú með um 6% fylgi í könnunum, sem duga fyrir um fjórum þingmönnum.“

Ólafur og Karl Gauti eru þó ekki alveg á berangri á Facebook þar sem þeir eiga nokkra vinveitta viðhlæjendur. Þannig tjáir blaðakonan Erna Ýr Öldudóttir sig um málið á Stjórnmálaspjallinu: „Þeir eru flottir, harðduglegir, vel menntaðir og reyndir menn með mörg góð mál í þágu almennings á sínum málalista. Miðflokkurinn stálheppinn að hafa landað þessum tveimur.“

Þá hlakkar einnig í Baldri Hermannssyni, einörðum hægrimanni og ellilífeyrisþega:  Þarna rak digra drumba á fjörur Sigmundur, sprenglærðir báðir tveir, valinkunnir sómamenn, duglegir og vel máli farnir, Karl Gauti handgenginn ýmsum mannúðarmálum og Ólafur Ísleifsson gjörþekkir hagfræði samfélagsins.

Ekki er vafi að þeir Karl og Ólafur munu stórefla Miðflokkinn og ljá honum nýja vigt í umræðum og atkvæðagreiðslum ... en mun innganga þeirra verða til þess að auka fylgi flokksins sem átt hefur í vök að verjast eftir drykkjusvallið á Klausturbar?

Mín ágiskun er sú að Miðflokkurinn muni eflast í áliti almennings en það mun ekki gerast skjótlega, heldur smám saman og í raun óvíst hvort hann nái þeim hæðum hvar hann spókaði sig fyrir áfallið mikla.“