Netþrjótarnir sem réðust á Strætó í lok desember komust yfir upplýsingar úr Þjóðskrá og kerfiskennitöluskrá, auk aðgangs að þeim kerfum og upplýsingum sem áður hefur verið upplýst um. Þetta kemur fram í tilkynningu frá strætó en þar segir að rannsókn málsins sé lokastigi.
Nánar tiltekið er um að ræða eftirfarandi upplýsingar:
- Þjóðskrá: þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem eru eða hafa verið skráðir til lögheimilis á Íslandi og íslenska ríkisborgara búsetta erlendis, þ.e. upplýsingar um nafn, kennitölu, kyn, lögheimili, hjúskaparstöðu, fjölskyldunúmer, birtingarnafn, afdrif (týndur eða látinn), og bannmerkingu auk nafns og kennitölu maka
- Kerfiskennitöluskrá: þar sem finna má upplýsingar um einstaklinga sem eru eða hafa verið búsettir á Íslandi án lögheimilis, þ.e. upplýsingar um nafn, kerfiskennitölu, kyn, dvalarstað, dagsetningu nýskráningar, númer viðkomandi í skránni og birtingarnafn
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær komust árásaraðilarnir yfir yfir kerfi Strætó sem hýsir gögn er tengjast akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra sem Strætó hefur sinnt fyrir hönd tilgreindra sveitarfélaga á tímabilinu 2014-2021.
Eins og komið hefur fram, þá hafa árásaraðilarnir krafið Strætó um greiðslu og hótað því að leka viðkomandi gögnum verði Strætó ekki við kröfum þeirra.
Í samræmi við leiðbeiningar netöryggissveitar Íslands mun Strætó ekki verða við þeim kröfum.
Persónuvernd hefur verið tilkynnt um málið og hafa sveitarfélögin og Strætó verið í miklum samskiptum við stofnunina vegna þessa og haldið henni upplýstri, segir í tilkynningu Strætó.