Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgefandi hjá Forlaginu, fékk senda hótun frá óprúttnum aðila sem hugðist hafa af henni handrit skáldsögunnar Olíu eftir Svikaskáld, sem er nýkomin út. Þjófurinn villti á sér heimildir og sendi Úu tölvupóst í nafni Tone Myklebost, norsks þýðanda, og bað hana um að senda sér PDF-útgáfu bókarinnar.

„Ég sá strax að þetta var þessi svindlari sem við vorum að tala um, í fyrsta lagi vegna þess að ég var náttúrlega meðvituð um að þetta væri í gangi en svo sá ég líka netfangið. Svo er það bara þannig að þessi norski þýðandi, þó ég hafi verið í sambandi við hana, þá er það ekki þannig að hún sé að skrifa mér og biðja mig um handrit,“ segir Úa.

Hún vissi að ekki væri allt með felldu því sami aðili hefur áður herjað á höfunda og starfsfólk Forlagsins og reynt að hafa af því handrit með sambærilegum hætti. Úa sendi bókaþjófnum því póst um hæl og spurði hvort hann myndi ekki vilja ræða málin við Silviu Cosimini, ítalskan þýðanda sem hann hafði áður þóst vera, og lét fylgja með falskt netfang í nafni Silviu.

„Með þessu var ég að segja: Við sjáum í gegnum þig. Þá brást viðkomandi ókvæða við og sendi mér skilaboð þar sem hann segir: Hæ! Einn daginn kem ég til þín. Ég veit hvar þú býrð.“ Þetta er staðfest í afriti af tölvupóstsamskiptunum.

Mál Úu er ekki einsdæmi því sambærileg atvik hafa átt sér stað í bókabransanum undanfarin ár og virðast partur af alþjóðlegri svikastarfsemi sem teygir anga sína til Bandaríkjanna, Svíþjóðar og Ísraels. Íslenskir höfundar eins og Einar Kárason og Hildur Knútsdóttir hafa orðið fyrir barðinu á bókaþjófnum, jafnt sem stjörnur á borð við Margaret Atwood og Ian McEwan.

Þrátt fyrir að Úa hafi áður þurft að verjast ásókn bókaþjófsins lýsir hún atvikinu sem fremur óþægilegu og fyrir hvatningu samstarfsfólks síns ákvað hún að tilkynna málið til lögreglu. Hún segist þó ekki taka hótunina mjög alvarlega.

„Ég get ekki sagt að þetta hafi glatt mig en ég var ekkert uggandi. Ég tek þetta ekki alvarlega. Þessi manneskja veit ekkert um mig og situr eflaust einhvers staðar í útlöndum og er að gera þetta,“ segir Úa.