Ivan Gliskin upplýsingafulltrúi hjá Rússneska sendiráðinu á Íslandi neitar því að vita nokkuð um netárásina sem gerð var á vef Fréttblaðsins, frettabladid.is, í morgun. Umferð á eldvegginn hjá Fréttablaðinu tólffaldaðist miðað við venjulega umferð milli klukkan 8 og 9 í morgun, og hefur hýsingaraðili virkjað sérstakar öryggisreglur vegna árásinnar. Með þessum auknu öryggisreglum kemst aðeins lítið brot af umferð niður á vefþjónana sjálfa, sem eru öruggir eins og er.

Rússneska sendiráðið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem mótmælt er myndbirtingu blaðsins í viðtali við Val Gunnarsson sem er staddur í Kænugarði, en þar mátti sjá einstakling stíga á rússneska fánann. Krafðist sendiráðið afsökunarbeiðni.

Sig­mundur Ernir Rúnars­son, rit­stjóri Frétta­blaðsins, hefur ítrekað sagt að Fréttablaðið ætlar ekki að biðjast afsökunar á myndbirtingunni þar sem um fréttamynd sé að ræða.

Fréttablaðið hefur kært netárásina til lögreglu og óskað eftir því lögreglan aðstoði við að upplýsa hver eða hverjir standa að hótuninni og netárásinni á vef Fréttablaðsins.

„Ekki hörð viðbrögð“ að gera tölvuárás á fjölmiðil

Gliskin upplýsingafulltrúi sendiráðsins segir að Rússar krefjist afsökunarbeiðni frá Fréttablaðinu, enda sé hér mjög alvarlegt mál á ferðinni, sem hafi vakið mikil viðbrögð meðal rússnesk almennings.

Hann sagði að hver sem er gæti hafa staðið að tölvuárásinni en sendiráðið hefði ekkert haft með hana að gera. „Mér finnst þetta ekki hörð viðbrögð í málinu,“ sagði Gliskin spurður um tölvuárás á frjálsan fjölmiðl á Íslandi.

Rússneska sendiráðið sendi einnig bréfpóst á Fréttablaðið sem barst í morgun en þar er blaðið aftur krafið um afsökunarbeiðni. Í bréfinu ítrekar sendiráðið skoðun sína að um að myndbirting brjóti á almennum hegningarlögum. Í niðurlagi bréfsins segir að sendiráðið búist við því að fá afsökunarbeiðni frá blaðinu fyrir að hafa móðgað þjóðfána Rússlands.