Þingkosningar fara nú fram í Ísrael en litið er á kosningarnar í ár sem ákveðnar allsherjaratkvæðagreiðslu um Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem hefur verið ákærður fyrir spillingu. Netanyahu hefur ítrekaði neitað sök og heldur því fram að vinstrimenn séu að reyna að koma honum frá löndum.

Kjörstaðir loka klukkan 20:00 að íslenskum tíma og má búast við útgöngukönnunum á svipuðum tíma. Þó má gera ráð fyrir að endanlegar niðurstöður muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir nokkra daga. Eftir að niðurstöður liggja fyrir mun forsetinn veita formönnum stærstu flokkanna umboð til að mynda ríkisstjórn.

Gætu átt von á öðrum kosningum

Verulega illa hefur gengið að mynda ríkisstjórn í Ísrael en kosningarnar í dag eru þær fjórðu á innan við tveimur árum. Eftir kosningarnar fyrir ári síðan náðu Likud-flokkur Netanyahu og Bláhvíta bandalag Benny Gantz saman til að mynda ríkisstjórn en hún féll vegna ósættis milli flokkanna.

Síðustu kannanir sem birtar voru fyrir helgi bentu til þess að allt að þrettán flokkar næðu inn manni á ríkisþingið, Knesset, en alls sitja þar 120 þingmenn. Likud-flokkurinn er með mesta fylgið samkvæmt könnunum og munu líklega ná í kringum 30 mönnum inn.

Þar sem þó nokkrir flokkar hafa gefið það út að þeir muni ekki vinna með Netanyahu í ríkisstjórn gæti það reynst erfitt að mynda nýja stjórn og því ekki ólíklegt að Ísraelar þurfi að ganga enn einu sinni til kosninga á árinu.