Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur verið gert að mæta fyrir dómstól í Jerúsalem á sunnudag. Réttarhöld hans áttu að hefjast í síðasta mánuði en var frestað af dómsmálaráðherra vegna kórónuveirufaraldursins.

Forsætisráðherrann var ákærður í fyrra fyrir fjársvik, trúnaðarbrest og fyrir að taka við mútum. Netanyahu hefur ítrekað neitað sök og fullyrt að hann sé fórnarlamb pólitískra nornaveiða.

Lögfræðingar Netanyahu höfðu beðið dómstólinn um undanþágu frá því að mæta fyrir upphaf málsmeðferðarinnar en beiðninni var hafnað þar sem ekki þótti næg ástæða til.

Hæstiréttur Ísraels úrskurðaði fyrr í mánuðinum að Netanyahu mætti mynda ríkisstjórn þrátt fyrir ákærurnar.