Reu­ven Rivlin, for­seti Ísrael, hefur nú veitt Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, um­boð til þess að mynda ríkis­stjórn eftir þing­kosningarnar sem fóru fram í landinu 23. mars síðast­liðinn. Rivlin hefur þó sjálfur sagt að enginn eigi raun­hæfan mögu­leika á að mynda ríkis­stjórn en þar sem Likud-flokkur Netanyahu fékk flest sæti var látið reyna á það.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið mun Netanyahu hafa 28 daga til þess að reyna að mynda ríkis­stjórn og er mögu­leiki á að fram­lengja þann tíma um tvær vikur. Ef honum tekst ekki ætlunar­verk sitt fyrir þann tíma mun Rivlin annað hvort bjóða leið­togum annarra flokka um­boð eða biðja þingið um að velja þann sem fær um­boð.

Pattstaða vegna ósættis

Kosningarnar í síðasta mánuði voru þær fjórðu á innan við tveimur árum en veru­lega illa hefur gengið að mynda ríkis­stjórn vegna ó­sættis, sem beinist helst að for­sætis­ráð­herranum. Eftir kosningarnar fyrir ári síðan náðu Likud-flokkur Netanyahu og Blá­hvíta banda­lag Benny Gantz saman til að mynda ríkis­stjórn en hún féll þar sem ekki náðist að koma fjár­lögum í gegnum þingið.

Stjórnar­myndun hefur reynst sér­stak­lega erfið þar sem margir hafa neitað að vinna með Netanyahu í ljósi á­sakana gegn honum um spillingu en réttar­höld í því máli fara nú fram. Hann er á­kærður fyrir mútu­þægni, svik, og rof á trausti í þremur mis­munandi málum en neitar al­farið sök og hefur sakað vinstri­menn um norna­veiðar.

Netanyahu hefur setið sem for­sætis­ráð­herra frá árinu 2009 en þetta er í fyrsta sinn sem réttað er yfir sitjandi for­sætis­ráð­herra í Ísrael. Hann nýtur þó enn mikils stuðnings og söfnuðust til að mynda stuðnings­menn hans fyrir utan dóm­stólinn í Jerúsalem í gær til að styðja Netanyahu.