Dagur einhleypra er vinsælastur afsláttardaga. Samkvæmt greiningu Rannsóknarseturs verslunarinnar á innlendri kortaveltu, nam veltan á þessum degi, 11. nóvember, 11,4 prósentum af heildarveltu nóvembermánaðar í fyrra og var hlutfallið svipað og 2020.

Næstmest var veltan á Svörtum föstudegi og þar á eftir kemur Netmánudagurinn. Í fyrra var netverslun í nóvember meira en tvöfalt meiri en í október.

Netafsláttardagarnir virðast lítil áhrif hafa á verslun í gegnum posa. Í fyrra jókst sú verslun um 1,1 prósent milli október og nóvember.

Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar, segir ekki hafa verið gerða greiningu á því hvort þessir netafsláttardagar í nóvember hafi fært jólasöluna fram í nóvember.

Verslunareigendur segja söluna á degi einhleypra í ár hafa verið mjög góða. Margir segjast hafa tilfinningu fyrir því að netafsláttardagarnir í nóvember breyti verslunarhegðun landans.