Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu alla helgi en víða er mikið tjón eftir veðurofsann á Suðausturlandi, Austurlandi, í Öræfum og Norðurlandi eystra.

Nokkrar hjálparbeiðnir til björgunarsveita hafa borist með morgninum vegna foks á Reyðarfirði, í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Tré hafa rifnað upp með rótum, þakplötur fokið, gluggar brotnað og heilu húsin fallið saman.

Veður er því enn slæmt á fjörðunum og lítið sem ekkert ferðaveður er á Austurlandi. Ljóst er að talsvert verk bíði sveitarfélaganna í hreinsunar- og viðgerðarstarfi. Talið er að tjónið hleypi á tugum milljóna.

Leiðréttin: Áður kom fram að Náttúruhamfaratryggingar Íslands myndu kanna aðstæður en félagið segir í yfirlýsingu að það tryggi ekki foktjón. Þeim sem orðið hafa fyrir foktjóni er bent á að hafa samband við sín vátryggingafélög til að kanna stöðu sína.

Úr bongóblíðu í hamfaraveður

Aron Leví Beck, skipulags- og umhverfisfulltrúi hjá Fjarðabyggð, segist aldrei hafa séð eins ör skipti á einni árstíð. Nokkrum dögum fyrir hamfaraveðrið um helgina voru íbúar að sóla sig í 19 stiga hita. Enn er mikill ofsi og úfinn sjór í firðinum öllum, mikið tjón á Reyðarfirði og Eskifirði.

„Það er pínu þreyta í fólkinu. Þar fer mikið af stað í höfðinu þegar maður situr fastur inni í húsinu. Eina sem hægt er að gera að sitja af sér veðrið.“

Aron Leví mætti í vinnuna í dag og sá mikið tjón í bænum á eigum einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. „Eins og það hafi verið sprenging.“

Aron Leví Beck tók myndbandið hér að neðan sem sýnir vindhviðurnar.

Stefán Þór Eysteinsson, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, segir enn mikið sjórok og seltu í Neskaupstað. „Ég kíkti út um gluggann og bíllinn var alveg þakinn salti,“ segir Stefán Þór.

„Við verðum marga daga að þrífa saltið af gluggunum,“ segir hann. Fólki hafi staðið sig vel í að ganga frá lausumunum en víða í Neskaupstað má sjá brotin tré og glugga.

Leikskóla og skólar eru opnir í dag en ljóst er að börnin fái ekki mikinn útitíma.

Munir hafa fokið um bæinn.
Mynd: Stefán Þór
Tré hafa brotnað og rifnað upp með rótum.
Mynd: Stefán Þór

Starfsfólk Alcoa fast í vinnunni

Keyra þurfti álver Alcoa upp eftir rafmagnsleysi. Starfsfólk á dagvakt var áfram í vinnunni þar sem venjubundin vaktaskipti gátu ekki farið fram.

„Starfsfólk stóð sig frábærlega við þessar aðstæður,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa. Hún segir að fólk á dagvakt hafi unnið lengur en fólk sem búi í nágrenni álversins hafi komist til vinnu um kvöldið. Þau sem búa lengra í burtu gátu ekki mætt vegna vegalokana.

„Vert að hrósa félögum okkar hjá Landsneti og Landsvirkjun líka fyrir góð viðbrögð þegar það sló út. Það var mikið kapp lagt á að koma öllu í gang aftur.“

Hún segir álverið ekki geta verið rafmagnslaust lengi, þá sé farin að stafa veruleg hætta af framleiðslunni.

„Ef það er rafmagnslaust of lengi gæti farið frjósa í kerjunum og þá þyrftum við að byrja upp á nýtt.“

Þak fauk af fjárhúsi nærri Höfn í Hornarfirði í gærmorgun.
Mynd: Stephan Mantler

Bæjarbúar í Höfn hafa verið duglegir að tína rusl eftir hvassviðrið.

Skrýmir Árnason í Höfn segir mikla seltu á öllum gluggum. „Það halda allir að það sé þoka þegar þeir horfa út.“

Vegagerðin hefur lokað vegum bæði suður og austur og er nær allur akstur bannaður alla leið frá Skaftafelli að Fáskrúðsfirði.

Vegalokanir á Suðausturlandi.
Mynd: Vegagerðin