Dúman, neðri deild rússneska þingsins, samþykkti í gær einróma frumvarp um þær breytingar á stjórnarskrá landsins sem Vladímír Pútín forseti lagði fram og taka eiga gildi eftir að kjörtímabili hans lýkur árið 2044.

Atkvæðagreiðsla deildarinnar í gær var sú fyrsta af þremur. Næst verður gengið til atkvæða 11. febrúar.

Athygli vekur að ekki er liðin vika frá því að Pútín kynnti hugmyndir að stjórnarskrárbreytingum. Hann segir að þeim sé ætlað að styrkja lýðræðið í landinu og færa þinginu aukin völd. Ákvæði verða sett inn um að forseti geti eingöngu setið samanlagt í tvö kjörtímabil.

Sérstök nefnd sem Pútín skipaði hefur, ásamt þingmönnum, lagt til ýmsar viðbætur við frumvarpsdrögin sem samþykkt voru í morgun.

Pútín, sem er 67 ára, hefur stýrt Rússneska sambandsríkinu í meira en 20 ár.

AP-fréttastofan segir gagnrýnendur telja að með stjórnarskrárbreytingunum vilji Pútín tryggja sér áframhaldandi áhrif. Þannig segir rússneski auðmaðurinn Mikhail Khodorkovskíj, sem sat í 10 ár fangelsi fyrir að ögra Pútín og býr nú í Bretlandi, að forsetinn sé með þessu að tryggja sér alger völd. Þau völd munu nú færast meira í skugga bakherbergja. Khodorkovskíj telur að Pútín gæti mögulega verið að undirbúa kosningar í ljósi almennrar óánægju vegna efnahagsvanda landsins.