Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi kafteinn Pírata á Alþingi, hefur snúið baki við sínum gamla flokki og ætlar berjast áfram fyrir þeim málum sem á henni brenna, frjáls og engum háð.

„Það er langt síðan ég hætti í Pírtötum. Ég fór bara hægt og hljóðlega, eða eins og segir í ágætu ljóði eftir T.S. Eliot þá verður heimsendir ekki með hvelli heldur kjökri,“ segir Birgitta í samtali við Fréttablaðið.

„Ég er búin að eyða átta árum í þessum stjórnmálaheimi og fór inn í pólitíkina eftir hrun þegar maður sá fram á möguleika á alvöru breytingum. Ég hef aldrei, aldrei á ævi minni fantaserað um það að vera þingmaður eða valdamanneskja,“ segir Birgitta og bætir við að hún hafi andstyggð á því að vera atvinnupólitíkus.

„Það er engin ein ástæða fyrir því að ég hætti í Pírötum en ég er ekki hópsál. Ég meika ekki að þurfa alltaf að vera að passa hvað ég segi og biðjast afsökunar á því ef ég særi einhvern eða segi eitthvað sem liggur í augum uppi. Ég er alveg til í að taka meint 9. spor á hvern einasta mann sem ég særi ef það er ekki út af einhverju bulli. Ég er alveg búin með þann kvóta í lífinu sem fylgir því að vera opinber persóna.“

Stjórnmálin eru eins og holdsveiki

„Ég myndi ekki ráðleggja neinum með fullu viti að fara út í stjórnmál í þessum tíðaranda sem er á Íslandi. Þetta er eins og að fá holdsveiki  og allt í einu er maður bara fair game. Alveg sama hvað maður gerir. Maður gerir aldrei neitt rétt. Maður gerir aldrei neitt vel.

Maður er settur í einhverja dilka með fólki sem maður hefur andstyggð á. Eina leiðin út úr þessu er að skera alveg á þetta og fara. Það er bara þannig.

Ég get alveg talað í marga sólarhringa um það sem mér finnst vera að í Pírötum en það kemur mér ekki lengur við hvernig þau haga sínum málum. Það kemur mér bara ekki neitt við.“

Birgitta segist fús til þess að viðurkenna að hún hafi gert alls konar mistök á stjórnmálaferlinum. „Ég er fyrsta manneskjan til þess að viðurkenna það að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér. Og ég nenni ekki að vera að troða mér upp á fólk sem hefur ekki áhuga á mér. Ég hef aldrei nennt því.

Ég brenn auðvitað ennþá fyrir sömu málunum en ætla að reyna að breyta þeim eftir öðrum leiðum. Það er ekkert hægt að breyta þessu samfélagi í gegnum Alþingi. Það bara er ekki hægt. Ég veit það núna og get sagt það af fullum þunga út af því að ég er búin að vera þarna í átta ár.

Ég er búin að taka þátt í að búa til stjórnmálaflokka sem áttu að vera verkfæri til þess að virkja almenning. Mín skilaboð til fólks, ef það vill breyta samfélaginu, er einfaldlega að setja vinnu í það. Hættið þessu væli og gerið eitthvað.  Það breytist ekkert ef fólk er að bíða eftir að einhver annar geri það fyrir mann.“

Orkan er ekki hjá stjórnmálaflokkunum

„Sem betur fer er bylgja í gangi núna, eins og í verkalýðshreyfingunum, þar sem fólk er einhvern veginn að átta sig. Orkan færist alltaf til í samfélaginu og núna er hún ekkert inni í stjórnmálaflokkunum. Hún er komin í verkalýðshreyfinguna og það er bara frábært,“ segir Birgitta sem ætlar framvegis að berjast ein síns liðs.

„Ég ætla bara að halda áfram að berjast fyrir því sem ég brenn fyrir eins og til dæmis að tryggja að blaðamenn geti unnið sína vinnu og birt fréttir í friði fyrir hótunum og ótta um fjárhagstjón, atvinnumissi eða eitthvað þaðan af verra. Það verður að treysta lagarammann utan um þá.“

Það eru vitleysingar alls staðar

Birgitta segist ganga sátt frá borði pírataskútunnar. „Ég er ekki týpan sem nennir að vera eitthvað bitur og sár. Þetta er bara búið og allt í fína. Ég er bara hætt í þessari hljómsveit og er komin í sólóband.

Mér finnst fullt af frábæru fólki vera að vinna inni á þingi og það er fullt af flottum Pírötum,“ segir Birgitta en bætir við að það eru líka vitleysingar alls staðar. Lífið sé einfaldlega þannig.

„Þótt þú gangir í einhvern sértrúarsöfnuð þá þýðir það ekki að allir í honum séu frábærir. Hópsálin er bara svo hættulegt fyrirbæri. Að fólk lokist inni í einhverri búbblu. Þetta er það sem gerist með Alþingi. Þingmenn lokast þarna inni og einangrast.

Þegar skríllinn komst inn á þing í gegnum Borgarahreyfinguna þá náttúrlega vissum við ekki neitt. Við vorum bara fólkið af götunni komið inn á Alþingi.

Við fengum því fyrrverandi ráðherra úr til þess að koma og útskýra fyrir okkur hvað við ættum að hafa í huga. Jón Baldvin kom og talaði við okkur og hann sagði eitt sem mér er mjög minnisstætt og mér finnst skipta miklu máli.   

Hann sagði: „Verið eins mikið úti og þið getið. Ekki festast inni á þingi. Því það er hörmulegt.“ Og hann hafði bara rétt fyrir sér. Fólk festist þarna inni. Það meinar vel en er fast inni í einhverju kerfi sem það verður svo bara samdauna.

Mér finnst gaman að vera úti og hitta fólk og þurfa ekki einhvern veginn að vera alltaf í einhverri sjálfsritskoðun á því hvernig ég tjái mig. Það er mér mjög erfitt og þetta er búið að vera mjög erfitt. Ég er enn að jafna mig.“

Birgitta segist eiginlega hafa brunnið út, lent í því að kulna í þingstarfinu en sé frjáls núna. „Mér líður ógeðslega vel og ég vona bara að mínum fyrrverandi samstarfsélögum líði vel líka. En þau þurfa bara endilega að fara að komast út úr þessari búbblu sinni og fara að gera eitthvað í þessu beina lýðræði sem þau voru búin að lofa hérna.

Hvar er betra Ísland? Og hvar eru áherslurnar og umræðurnar um það hjá Pírötum?“


Lokaerindi ljóðsins The Hollow Men eftir T.S. Eliot

V

Here we go round the prickly pear

Prickly pear prickly pear

Here we go round the prickly pear

At five o'clock in the morning.

 

Between the idea

And the reality

Between the motion

And the act

Falls the Shadow

For Thine is the Kingdom

 

Between the conception

And the creation

Between the emotion

And the response

Falls the Shadow

Life is very long

 

Between the desire

And the spasm

Between the potency

And the existence

Between the essence

And the descent

Falls the Shadow

For Thine is the Kingdom

 

For Thine is

Life is

For Thine is the

 

This is the way the world ends

This is the way the world ends

This is the way the world ends

Not with a bang but a whimper.