Nemendur sem sækja um nám í framhaldsskóla í Japan þurfa nú ekki lengur að gefa upp kyn sitt á skráningarforminu. Breytingin tekur gildi í öllum héröðum landsins fyrir utan Tókýó.
Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað í Japan um málefni kynsegin og trans einstaklinga. Ákvörðunin er tekin með það í huga að auðvelda fólki skráningu sem kann að upplifa óþægindi við að þurfa velja kyn sem það samsamar sig ekki með.
Tvö svæði í Japan, Osaka og Fukuoka, fjarlægðu kynjaskráningu af formum sínum fyrir skólaárið 2019. Öll héröð landsins samþykktu að fjarlægja kynjaskráningu fyrir árið 2022 fyrir utan menntaráð Tókýó.
Menntaráð Tókýó segir að það muni ekki fjarlægja kynjaskráningu sem stendur vegna kynjakvótakerfis sem skólar svæðisins notast við. Kerfið hefur verið gagnrýnt fyrir að notast við mismunandi viðmið fyrir einkunnir karla og kvenna og var uppfært í september á þessu ári.
Stjórnarmaður í menntaráði Tókýó sagði við fréttastofu Japan Today að án kvótakerfisins væri kynjaskráningin óþörf og gaf til kynna að héraðið myndi mögulega fylgja hinum eftir í framtíðinni.
Framhaldsskólar á Íslandi tóku svipaða ákvörðun í september á þessu ári. Nemendur eru ekki lengur skráðir samkvæmt kyni heldur geta þeir valið eigið fornafn inn á upplýsingakerfi nemenda, Innu. Átta fornöfn eru í boði; hann, hún, hán, það, þau, hín, héð og hé.
Kynjakvótinn tvíeggja sverð
Kynjakvótakerfið í Tókýó var upprunalega tekið upp til að auka hlutfall stúlkna í japönskum skólastofum. Það var gangsett í skólum í Tókýó skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina og miðaði þá við jöfn hlutföll, helmingur stúlkur og helmingur strákar.
Það hafði í fyrstu tilskilin áhrif og hlutfall stúlkna jókst í öllum greinum. Stúlkur höfðu fram að þessu verið mest í saumatímum og heimilisfræði.
Fréttastofan Vice segir kynjakvótann seinna hafa orðið tvíeggja sverð en stúlkur byrjuðu að skora hærra en strákar á inntökuprófum fyrir framhaldsskólanna og til að viðhalda jöfnu hlutfalli neyddust skólar til að setja hærri skilyrði á stúlkur.

Stúlkur þurftu þá að fá hærri einkunnir til að ná inntökuprófum heldur en strákar út af kvótakerfinu sem átti að auka möguleika þeirra til að sækja framhaldsnám. Kynjahlutfall nemenda í háskóla í Japan hallar enn mjög á konur. Árið 2018 voru konur aðeins tuttugu prósent nemenda við Háskólann í Tókýó.
Þeir einstaklingar sem ekki ná inntökuprófum þurfa að velja sér aðra skóla eða borga úr vasa til að fara í einkarekna skóla í staðinn.
Kynjakvótakerfið í Tókýó var uppfært á þessu ári þannig að tíu prósent nemenda eru valin óháð kyni en hin níutíu prósentin verði áfram í jöfnum hlutföllum. Baráttufólk fyrir málefnum kvenna og hinsegin fólks segja menntaráð Tókýó draga fæturna og hvetja það til að fylgja í fótspor hinna héraðanna.