Nem­endur sem sækja um nám í fram­halds­skóla í Japan þurfa nú ekki lengur að gefa upp kyn sitt á skráningar­forminu. Breytingin tekur gildi í öllum héröðum landsins fyrir utan Tókýó.

Mikil vitundar­vakning hefur átt sér stað í Japan um mál­efni kyn­segin og trans ein­stak­linga. Á­kvörðunin er tekin með það í huga að auð­velda fólki skráningu sem kann að upp­lifa ó­þægindi við að þurfa velja kyn sem það sam­samar sig ekki með.

Tvö svæði í Japan, Osaka og Fuku­oka, fjar­lægðu kynja­skráningu af formum sínum fyrir skóla­árið 2019. Öll héröð landsins sam­þykktu að fjar­lægja kynja­skráningu fyrir árið 2022 fyrir utan mennta­ráð Tókýó.

Mennta­ráð Tókýó segir að það muni ekki fjar­lægja kynja­skráningu sem stendur vegna kynja­kvóta­kerfis sem skólar svæðisins notast við. Kerfið hefur verið gagn­rýnt fyrir að notast við mis­munandi við­mið fyrir ein­kunnir karla og kvenna og var upp­fært í septem­ber á þessu ári.

Stjórnar­maður í mennta­ráði Tókýó sagði við frétta­stofu Japan Today að án kvóta­kerfisins væri kynja­skráningin ó­þörf og gaf til kynna að héraðið myndi mögu­lega fylgja hinum eftir í fram­tíðinni.

Framhaldsskólar á Íslandi tóku svipaða ákvörðun í september á þessu ári. Nem­endur eru ekki lengur skráðir sam­kvæmt kyni heldur geta þeir valið eigið for­nafn inn á upplýsingakerfi nemenda, Innu. Átta forn­öfn eru í boði; hann, hún, hán, það, þau, hín, héð og hé.

Kynjakvótinn tvíeggja sverð

Kynja­kvóta­kerfið í Tókýó var upp­runa­lega tekið upp til að auka hlut­fall stúlkna í japönskum skóla­stofum. Það var gang­sett í skólum í Tókýó skömmu eftir seinni heims­styrj­öldina og miðaði þá við jöfn hlut­föll, helmingur stúlkur og helmingur strákar.

Það hafði í fyrstu til­skilin á­hrif og hlut­fall stúlkna jókst í öllum greinum. Stúlkur höfðu fram að þessu verið mest í sauma­tímum og heimilis­fræði.

Frétta­stofan Vice segir kynja­kvótann seinna hafa orðið tví­eggja sverð en stúlkur byrjuðu að skora hærra en strákar á inn­töku­prófum fyrir fram­halds­skólanna og til að við­halda jöfnu hlut­falli neyddust skólar til að setja hærri skil­yrði á stúlkur.

Mynd úr japanskri skólastofu um aldamótin 1900.
Fréttablaðið/Getty

Stúlkur þurftu þá að fá hærri ein­kunnir til að ná inn­töku­prófum heldur en strákar út af kvóta­kerfinu sem átti að auka mögu­leika þeirra til að sækja fram­halds­nám. Kynja­hlut­fall nem­enda í há­skóla í Japan hallar enn mjög á konur. Árið 2018 voru konur að­eins tuttugu prósent nem­enda við Há­skólann í Tókýó.

Þeir ein­staklingar sem ekki ná inn­töku­prófum þurfa að velja sér aðra skóla eða borga úr vasa til að fara í einka­rekna skóla í staðinn.

Kynja­kvóta­kerfið í Tókýó var upp­fært á þessu ári þannig að tíu prósent nem­enda eru valin óháð kyni en hin níu­tíu prósentin verði á­fram í jöfnum hlut­föllum. Bar­áttu­fólk fyrir mál­efnum kvenna og hin­segin fólks segja mennta­ráð Tókýó draga fæturna og hvetja það til að fylgja í fót­spor hinna héraðanna.