Á morgun efna nemendur í Hagaskóla til samstöðukaffis í anddyri skólans til að safna undirskriftum til að koma í veg fyrir einum nemenda skólans, Zainab, og fjölskyldu hennar verði vísar úr landi. Nemendurnir mótmæla harðlega áformum yfirvalda um að vísa þeim úr landi í óvissu og vilja að fólk sýni þeim samstöðu í mótmælum sínum.

Svava Þóra Árnadóttir er nemandi í 10. bekk í Hagaskóla og er ein af þeim sem hefur séð um að skipuleggja mótmælin, samstöðugönguna og söfnun undirskrifta eftir að nemendurnir komust að því að vísa ætti skólafélaga þeirra úr landi. Hún segir að hún vonist til þess að sem flestir taki þátt í samstöðugöngunni á morgun og segir að samstaða sé dýrmætari en skrópið sem börnin gætu fengið fyrir að taka þátt.  

„Ég vona það svo innilega, en annars fær fólk bara eina fjarvist sem að skiptir ekki miklu máli í samanburði við það sem við erum að fara að gera,“ segir Svava í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Samstaða verðmætari en nokkur tími

Í tilkynningu frá börnunum sem send var út í kvöld benda börnin kennurum sem efast um aðgerðirnar að um sé að ræða „fyrirtaks tækifæri fyrir fræðandi skólaverkefni“.

„Það að sýna samstöðu og berjast fyrir þeim sem þurfa á því að halda er mun verðmætari kennsla en nokkur tími,“ segir í yfirlýsingu ungmennanna.

Svava segir að þau vonist til þess að sem flestir styðji við aðgerðirnar. Hún segir að nærri allir nemendur séu búnir að skrifa undir og að alltaf bætist í undirskriftirnar á netinu.

„Við urðum mjög ánægð þegar við komumst upp í sex þúsund áðan,“ segir Svava.

Ísland eigi að virða ákvæða Barnasáttmálans

Við undirskriftasöfnunina sem ungmennin hófu á netinu segir að Zainab sé aðeins fjórtán ára gömul en hafi gengið í gegnum hluti sem „ekkert barn eða fullorðinn einstaklingur ætti að þurfa að ganga í gegnum“.

Þau benda á í yfirlýsingu sem fylgir undirskriftasöfnun þeirra að Ísland hafi innleitt Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í íslensk lög og samkvæmt því ættu yfirvöld að taka „allar ákvarðanir er varða börn með hagsmuni barna að leiðarljósi. Það sem barninu er fyrir bestu á að ráða. Einnig fjallar sáttmálinn um rétt barna til góðra lífsskilyrði, vernd gegn ofbeldi, og rétt til menntunar (grein 28), svo dæmi séu nefnd.“

Nemendur í Hagaskóla skora því á stjórnvöld að taka tillit til þessara ákvæða Barnasáttmálans þegar þau taka ákvörðun um brottvísun Zainab og fjölskyldu hennar.

Hægt er að skrifa undir hér og finna upplýsingar um viðburðinn á morgun hér.