Í dag gengu hundruð nemenda við Menntaskólann í Hamrahlíð út úr tíma í mótmælaskyni. Mikil umræða hefur verið síðustu daga vegna kynferðisbrota nemenda í framhaldsskólum og viðbragða skólanna, eða skort þar á.

Mikill fjöldi hefur gengið út í öðrum skólum og er stór hópur ungmenna samankominn við MH til að mótmæla. Hér að neðan má sjá myndir og myndbönd sem tekin voru við skólann.

Hér má sjá Ásmund Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í þvögunni.
Fréttablaðið/Margrét
Fréttablaðið/Margrét

Í vikunni hefur verið greint frá málum í MH og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem nemendur sem voru beittir ofbeldi af öðrum nemanda í skólanum kvörtuðu yfir því að hafa þurft að mæta geranda sínum í skólanum og kölluðu eftir meiri viðbrögðum frá yfirvöldum.

MH hefur brugðist við málinu og beðið nemendur afsökunar. Mennta- og barnamálaráðherra hefur boðað skóla­stjórn­endur á fund um við­brögð við kyn­ferðis­of­beldi í fram­halds­skólum en Samband íslenskra framhaldsskólanema segir Ásmund fallinn á tíma.

„Stjórn SÍF harmar það mjög að aðgerðaleysi stjórnvalda var lítið sem ekkert frá því að atvik kemur upp í Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi að núverandi atvikum í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Í kjölfarið hefur SÍF tekið þá ákvörðun eftir ákall skólastjórnenda og framhaldsskólanemenda að setja af stað aðgerðarhóp sem SÍF leiðir,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum sem þau sendu út í gær.

Nemendur skipulögðu mótmæli í MH en í viðburðinum má sjá að nemendur í öðrum skólum eru líka hvattir til þess að ganga út og koma að MH eða mótmæla fyrir utan sinn skóla.

Talskona Stígamóta sagði í vikunni að hún hefði á tilfinningunni að #metoo bylting framhaldsskólanema væri við það að hefjast.

Fréttablaðið/Margrét