Skóla­starf hófst á nýjan leik í grunn­skólum landsins í morgun eftir lokun vegna út­breiðslu kórónu­veirunnar og páska­frís. Þeir nem­endur sem hófu skóla­árið í Foss­vogs­skóla og voru færðir í Korpu­skóla í lok mars munu hins vegar ekki mæta í skólann í dag þar sem starfs­dagur er í skólanum.

Hús­næði Foss­vogs­skóla er ó­starf­hæft vegna myglu og var starf­semi skólans flutt í Korpu­skóla mið­viku­daginn 24. mars. Kom hins vegar í ljós að raka­skemmdir eru í Korpu­skóla og var skóla­starfi þar hætt eftir einn dag. Í kjöl­farið var skóla­starf bannað vegna kórónu­veirunnar fram að páska­fríi.

Unnið hefur verið að við­gerðum, sem tengjast raka­skemmdum, undir eftir­liti og sér­fræði­kunn­áttu starfs­fólks EFLU verk­fræði­stofu í kjöl­far út­tektar á hús­næðinu þar sem at­huga­semdir og myndir frá full­trúum for­eldra í skóla­ráði Foss­vogs­skóla voru höfð til hlið­sjónar. EFLA hefur fram­kvæmt nánari skoðanir og unnið að endur­bótum um páskana. Heil­brigðis­eftir­lit Reykja­víkur mun taka út hús­næðið í dag.

Haldinn verður skipu­lags­dagur í Foss­vogs­skóla við Korpu í dag en for­eldrar og for­ráða­menn nem­enda í skólanum hafa verið boðaðir á fjar­fund í há­deginu í dag með skóla­stjórn­endum og starfs­mönnum EFLU verk­fræði­stofu. Skóli hefst síðan sam­kvæmt stunda­skrá á mið­viku­daginn.