Reykjavíkurborg hefur leigt húsnæði á Hótel Sögu fyrir kennslu nemenda í 8. bekk Hagaskóla á meðan framkvæmdum á húsnæði skólans stendur og hófst kennsla þar í morgun.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að kennsla nemenda í 8. bekk skólans hefði verið felld niður eftir að mygla greindist í múr þar sem stofur nemendanna eru staðsettar.

Vinna við undirbúning framkvæmda hófst strax í lok síðustu viku og var mikil áhersla lögð á að finna nýtt rými fyrir kennslu nemenda, sem telja um tvö hundruð, á meðan framkvæmdirnar standa yfir.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var 2. hæð á Hótel sögu leigð út fyrir kennslu nemenda, alls 1.100 fermetrar með aðgengi að sameign fyrir kennslu nemenda.