Elín Vilbergsdóttir, nemi við HR og fjölmiðlafulltrúi /sys/tra, félags kvenna við tölvunarfræðideild HR, segir í samtali við Fréttablaðið að yfirlýsingin sem hópur nemenda sendi frá sér á föstudaginn hafi ekki falið í sér neinn sérstakan fögnuð yfir því að lektorinn Kristinn Sigurjónsson hafi misst vinnuna.

Sjá einnig: Nemendur við HR fagna brotthvarfi Kristins lektors

„Við erum alls ekki að fagna heldur að styðja ákvörðun HR. Við vildum bara að okkar sjónarmið kæmu fram og viljum að það komi skýrt fram að við erum ekki að fagna brottrekstri hans. Okkur finnst þetta leiðinlegt mál og leitt að hann hafi misst vinnuna sína.“

Sjá einnig: Rektor segir HR ekki líða hatursorðræðu

Hún segir kjarnann í yfirlýsingunni fyrst og fremst þakkir nemenda til HR fyrir að sýna þeim samstöðu og að gæta þess að „okkur líði vel í skólanum. Vegna þess að mann langar ekkert að vera í tímum hjá manni sem er búinn að tala opinberlega um að hann vilji ekki hafa okkur í náminu eða með honum á vinnumarkaði.“

Fólk fékk bara nóg

Elín segist kannast við að umræður um Kristinn og viðhorf hans til kvenna hafi komið upp meðal nemenda áður en DV birti frétt upp úr ummælum Kristins á Karlaspjallinu á Facebook þar sem hann sagðist síður vilja vinna með konum.

Sjá einnig: Guðmundur Andri: Kristinn lektor er ekki stikkfrí

„Hann er búinn að vera mjög virkur til dæmis inni á athugasemdakerfi DV.is og þegar DV fer að fjalla um það sem hann hefur verið að segja inni á þessum lokaða hópi þá held ég að fólk hafi bara fengið nóg.“

„Hvernig á okkur að líða vel með kennara sem gagnrýnir okkur svona opinskátt og hvernig getum við verið viss um að við séum að fá rétta einkunn, að við getum leitað til kennarans varðandi efnið og fleira?“ spyr Elín.

Aðspurð segist hún ekki telja að nemendur hafi almennt ekki miklar áhyggjur af því að skoðanir og jafnvel fordómar kennara geti mögulega haft áhrif á námsmat þeirra.

„Ég held að þetta hafi verið einangrað tilfelli vegna þess að hann var svo opinn með þetta. Almennt er maður ekkert að hafa áhyggjur af þessu.“

Fleiri sammála en skrifuðu ekki undir

Hvað varðar tilraunir til þess að gera lítið úr yfirlýsingu nemendanna, meðal annars í athugasemdum við fréttir af henni, með vísan til þess að fáir skrifi undir og að þar eru konur í miklum meirihluta segir Elín að brugðist hafi verið hratt við og því ekki gefist mikill tími til þess að safna fleiri undirskriftum.

„Við vorum komnar með mun fleiri undirskriftir eftir að fréttin var birt og svo voru nokkrir sem vildu ekki koma fram undir nafni og vildu því ekki taka þátt.“ Þá tekur hún fram að þótt félagskonur í /sys/tur/ séu áberandi á undirskriftalistanum þá hafi fleiri nemendur skrifað undir og yfirlýsingin lýsi almennu viðhorfi fjölda nemenda.