Mikil ó­á­nægja ríkir á meðal nem­enda Há­skóla Ís­lands vegna fyrir­hugaðra stað­prófa í desember.

„Árið er 2021 og að Há­skóli Ís­lands, ríkis­há­skólinn okkar, vilji ekki leyfa nem­endum að nýta þá tækni sem er í boði og taka prófin heima er sorg­legt.“

Þetta kemur fram í opnu bréfi frá nem­endum á öðru ári í fé­lags­fræði við Há­skóla Ís­lands til Jóns Atla Bene­dikts­sonar, rektors, vegna fyrir­hugaðra stað­prófa í desember.

Nem­endurnir segjast sár og reið en fyrst og fremst von­svikin yfir á­kvörðun stjórn­enda skólans.

Frétta­blaðið greindi frá óánægju nemenda í síðustu viku en Jón Atli vildi ekki kannast við neina óánægju og sagði að hann hefði ekki orðið var við annað en að stað­prófin mættu skilningi nem­enda.

Auki streitu og kvíða nemenda

Í opnu bréfi frá nemendum til rektors, sem birtist í morgun á vef Vísis, segja þau það lokaúrræði þeirra að fara með málið í fjölmiðla til vonar um að þurfa ekki að mæta í staðpróf á meðan ástand samfélagsins sé svona. Er þar vísað til fjölda Covid-19 smita síðustu daga.

Nemendur hvetja rektor og stjórnendur eindregið til að endurskoða ákvörðun sína um staðpróf.

„Það er kominn tími til þess að HÍ sameinist okkur hinum sem erum komin í 21. öldina. Til hvers að auka streitu og kvíða nemenda? Af hverju ekki að leyfa okkur að vera á okkar griðarstað að taka prófin? Það hefur sýnt sig að nemendum líður miklu betur að hafa val um að taka próf í því umhverfi sem þeim líður best í,“ segir jafnframt í bréfinu.

Ekki klippt og skorið

Jón Atli sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að málið væri ekki alveg klippt og skorið. Það væri misjafnt eftir námskeiðum hvernig prófum yrði háttað.

Samkvæmt bréfi nemenda kemur fram að staðpróf munu eiga sér stað í flestum áföngum skólans þessa önn. Aðeins örfáir áfangar muni bjóða upp á heimapróf, 86 áfangar sem séu um 16 prósent allra áfanga í grunnnámi.