Frá og með næsta hausti mun nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi standa til boða launað starfsnám. Einnig munu sömu nemendur geta sótt um námsstyrk. Styrkurinn er 800 þúsund krónur og greiðist í tvennu lagi. Þessar aðgerðir eru hluti aðgerða sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í gær til að efla nýliðun kennara. Fréttablaðið greindi frá þessum áformum 14. janúar síðastliðinn.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að aðeins 28 prósent stöðugilda í leikskólum eru mönnuð leikskólakennurum og að það vanti leikskólakennara í 1.800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara. Á síðasta ári útskrifuðust 22 leikskólakennarar og 77 grunnskólakennarar frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands.

Á tíu ára tímabili, frá 2008 til 2018, fækkaði nýnemum í leik- og grunnskólafræðum um 40 prósent. Leiðbeinendum í grunnskólum hefur aftur á móti fjölgað verulega á síðustu árum, úr 272 árið 2016, 443 árið 2017 í 507 á þessu skólaári, 2018/19.