Skrekkshópur Austurbæjarskóla sendi opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Í bréfinu spyr leikhópurinn forsætisráðherra hvort ekki sé pláss fyrir mannlega samúð í íslensku samfélagi.

Nemendurnir í leikhópnum eru allir á unglingastigi í Austurbæjarskóla og velta fyrir sér hvað Katrín hafi viljað gera þegar hún var á þeirra aldri. ,,Hvað langaði þig að gera þegar þú yrðir stór? Hvernig samfélag ímyndaðir þú þér að yrði í framtíðinni? Langaði þig líka að Ísland yrði fyrir alla?" spurðu nemendur.

Senda vinina úr landi

„Viljum við hafa það orðspor að vera land sem sendir fólk burt sem á ekkert heimili? Eigum við ekki nóg af peningum, af hverju getum við þá ekki hjálpað þeim? Hver ákvað að þau megi ekki eiga heima hérna?," segir í bréfinu.

„Þið eruð að senda krakka úr landi sem væru kannski bekkjarfélagar okkar. Vinir okkar. Þið eruð að senda burt krakka sem eru þegar orðnir vinir okkar. Eins og Milina, Kemal, Samir, Aya, Leo, Ali, David og öll hin börnin sem hafa verið send úr landi. Af hverju eru þau ekki að skrifa þetta bréf?"

„Kæri forsætisráðherra. Þegar þú varst á okkar aldri, er þetta framtíðin sem þú vildir?," spyrja þau að lokum.

Lá þungt á hópnum

Ferlið sem leiddi að sköpun verksins “Kæri ráðherra” byrjaði að sögn leikhópsins síðastliðið haust í sömu viku og átti að senda Egypsku Khedr fjölskylduna úr landi. Málið lá þungt á hópnum og samkvæmt leiðbeinanda þeirra, Nínu Hjálmarsdóttur, kom ekki annað til greina en að verkið myndi fjalla um innflytjendastefnu stjórnvalda.

„Við ræddum lengi saman um hvernig þau gætu komið skoðunum sínum á framfæri með á listrænan máta,“ segir Nína. „Til dæmis komumst við að því að það væri ekki þeirra hlutverk að segja sögur flóttamanna/innflytjenda, heldur gætu þau í staðinn komið því á framfæri hvernig innflytjendastefnan hefur bein áhrif á þau.“

Viðtalið við forsætisráðherra hafi síðan orðið til þess að leikhópurinn ákvað að senda opið bréf og velta upp þeim spurningum sem brenna á þeim. „Nöfnin sem eru nefnd í bréfinu eru nöfn sem hafa verið gerð opinber í fréttum síðustu ár,“ útskýrir Nína en verkið mun verða sýnt þegar Skrekkur fer fram í mars.