Nemendafélag Borgarholtsskóla segir hegðun árásarmanns í Borgarholtsskóla gegn nemendum skólans ekki líðast í skólanum. Þetta kemur fram ítilkynningu á Instagram þar sem Gunnar Stefán Bjarnason, gjaldkeri félagsins, ávarpar nemendur.
Líkt og fram hefur komið voru umfangsmiklar lögregluaðgerðir í Borgarholtsskóla um nú um hádegi. Greint hefur verið frá því að ungur karlmaður hafi mætt í skólann vopnaður hafnaboltakylfu og hníf.
„Við vitum ekki alla söguna og hvað gerðist svo ég vil endilega biðja nemendur um að vera ekki að dreifa þessu,“ segir Gunnar. Hann biðlar til nemenda um að leyfa lögreglunni að vinna sína vinnu og dreifa ekki myndböndum af árásinni.
„En ég vil nefna það að nemendafélag Borgarholtsskóla hefur ekkert að gera með þetta fólk. Og við líðum ekki svona hegðun í skólanum okkar,“ segir Gunnar. Hann segist vona hið besta fyrir þá sem lentu í árásinni. „Förum varlega og ekki vera að dreifa neinum sögum.“