Skóla­stjórn­endur harma það að upp hafi komið að­stæður í kennslu­stund þar sem nem­endum hafi liðið illa,‘‘ segir Guð­rún Inga Sí­vert­sen skóla­stjóri Verslunar­skóla Ís­lands. Nemar í skólanum kvörtuðu vegna ó­við­eig­andi orða­notkun kennara í kennslu­stund.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins á Björn Jón Braga­son, kennari við skólann, að hafa notað niðrandi orð yfir fólk af svörtum upp­runa í lög­fræði­tíma nem­enda á loka­ári. Nem­endur sögðu hann hafa notað orðið í­trekað á­samt því að segja að þau þyrfti að hætta vera svona við­kvæm gagn­vart þessu orði.

Punktur kennarans á að hafa verið sá að nem­endurnir væru undir of miklum á­hrifum frá Banda­ríkjunum. Það væri í raun ekki þörf á að vera við­kvæmur gagn­vart orðinu. Það væri í lagi að nota það í um­ræðu hér á Ís­landi.

Sam­kvæmt heimildum á nemandi bekkjarins að hafa svarað og sagt að það væri kannski ekki þeirra að á­kveða hvort þetta orð væri notað eða ekki því þau væru hvít á hörund. Í um­ræðu tímans á Björn Jón einnig að hafa státað sig á því að eiga fleiri svarta vini en allir í bekknum og að sam­kvæmt þeim sé notkun orðsins í lagi.

„Það var ein­hver sem sagði ég á svarta vini og ég sagði já ég á líka svarta vini. Ég var ekki að rétt­læta það að ég væri að nota orðið, biddu fyrir þér. Mér finnst alveg ömur­legt hvernig þessu er stillt upp,“ segir Björn Jón Braga­son, lög­fræði­kennari við skóla.

Þver­tekur fyrir að hafa notað orðið í­trekað

Björn Jón, segir rangt að hann hafi notað orðið í­trekað. Það hafi einungis einu sinni komið upp í um­ræðunni út frá fræði­legu sam­hengi. Hann hafi sagt nem­endum sögu um út­varps­þátt þar sem fjallað var um barna­þulu þar sem orðið dúkkaði upp.

Hann hafi að­eins nefnt orðið þegar hann sagði þuluna. Það hafi fengið á nem­endur að heyra orðið nefnt í þessu fræði­lega sam­hengi sem hafi komið flatt upp á hann.

Í kennslunni hafi verið rætt að í banda­rískri um­ræðu væri þetta orð ekki notað. Björn Jón segir að hann hafi bent nem­endum á að það væri ekki bannað að nefna orð í um­ræðu á Ís­landi, orðið væri ekki bannað sem slíkt en að hann vildi ekki móðga neinn. Hann myndi því ekki nota orðið.

,,Þetta kom mér að ó­vart og þetta sýnir kannski líka að nem­endur eru þá undir á­hrifum af amerískri um­fjöllun sem ég kannski fylgist ekki með,‘‘ segir Björn Jón.

Björn Jón Bragason.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fóru yfir málin með nem­endum í morgun

Guð­rún Inga segir málið hafa komið upp á borð að­stoðar­skóla­stjóra fyrir helgi. Hann hafi hitt við­komandi kennara og rætt málin. Niður­staðan hafi verið að kennarinn myndi ræða við nem­endur í næsta tíma sem var nú í morgun og fara yfir málið.

,,Ég átti mjög gott spjall með þessum bekk í morgun þar sem við fórum mjög vand­lega yfir þetta,‘‘ segir Björn Jón sem telur að málinu sé lokið.

Ekki hafi borist neinar kvartanir frá nem­endum eftir fundinn með kennaranum í morgun og engar kvartanir frá for­eldrum varðandi málið að sögn Guð­rúnar Ingu. Þá hafi nem­endur verið á því að kennarinn hafi ekki ætlað að meina neitt illt en að orða­notkun hans hafi verið ó­við­eig­andi.

,,Skólinn mun að gefnu til­efni fræða allt skóla­sam­fé­lagið um mikil­vægi þess að vanda orða­val sitt og að notkun á ó­æski­legum orðum innan sem utan kennslu­stunda verður ekki liðin,‘‘ segir Guð­rún Inga. Hún hvetur nem­endur til að leita til hags­muna­ráðs eða beint til stjórn­enda skólans ef upp koma mál sem sam­ræmast ekki gildum skólans.