„Það sem tengist námi nemenda kom nokkuð vel út en þegar andleg líðan er skoðuð er ekki alveg sömu sögu að segja,“ segir Sigvaldi Sigurðarson, verkefnastjóri hjá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Hann flytur í dag erindi á málþingi um líðan og hagi framhaldsskólanema ásamt Margréti Lilju Guðmundsdóttur frá Rannsóknum og greiningu.

„Ég mun kynna niðurstöður könnunar sem við hjá SÍF framkvæmdum og Margrét mun kynna niðurstöður Rannsóknar og greiningar og þær sýna allar svart á hvítu hvernig andlegri heilsu nemenda hefur hrakað síðustu ár,“ segir Sigvaldi.

Þá segir Sigvaldi niðurstöður rannsóknar SÍF hafa sýnt að um átta prósent nemenda í framhaldsskóla séu í áhættuhópi vegna COVID-19 og að 47 prósent eigi náinn aðstandanda í áhættuhópi. „Þessi hópur nemenda er líklegri til að upplifa verri andlega heilsu en aðrir hópar og það þarf bæði að hlúa vel að honum og veita honum sveigjanleika,“ segir hann og tekur dæmi um slaka á mætingu eða val milli stað- eða fjarnáms.

Sigvaldi segir mikla óvissu hafa einkennt nám síðustu anna í framhaldsskólum og að slíkar aðstæður geti verið streituvaldandi fyrir nemendur. Stuttur fyrirvari hafi verið um breytingar á sóttvarnareglum og að dæmi séu um að nemendur hafi einungis fengið nokkurra daga fyrirvara um hvernig próf eða skólahald eigi að fara fram.

„Þetta er mikið álag á nemendur og til eru dæmi þess að nemendur sem ekki gátu eða ekki treystu sér til að mæta í skólann vegna þess að þau eða einhver náinn þeim voru í áhættuhópi, hafi verið bent á að skrá sig í fjarnám,“ segir Sigvaldi og bætir við að við slíkar breytingar geti útgjöld nemenda aukist.

„Og þá komum við að fjárhagslegu hliðinni en það voru mun fleiri en við bjuggumst við sem sögðust hafa upplifað fjárhagserfiðleika í faraldrinum,“ segir Sigvaldi, en 42 prósent allra nemenda höfðu upplifað fjárhagserfiðleika og 70 prósent nemenda á leigumarkaði.

Sigvaldi segir mikilvægt í þessu samhengi að tryggja sálfræðiþjónustu í alla framhaldsskóla sem sé gjaldfrjáls fyrir nemendur. Nú séu einungis starfandi sálfræðingar í um helmingi framhaldsskóla landsins. „Andleg heilsa er í frjálsu falli meðal þessa hóps. Biðlistar eftir sálfræðiaðstoð eru alltof langir og aðstoð á einkastofum er kostnaðarsöm og mikið álag er á náms- og starfsráðgjöfum. Það þarf að finna leiðir til að laga þetta,“ segir hann.

Málþingið fer fram klukkan tólf í dag og er öllum opið. Skráning fer fram á rannsoknir.is.