Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar stunguárás sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur í dag.

Henni barst tilkynning um einstakling sem sagðist hafa verið stunginn. Hann var með áverka á höndum og fótum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar, en þar segir að málið sé í rannsókn.

Greint er frá fleiri atvikum sem lögreglan þurfti að glíma við í dag, en hún fékk til dæmis tilkynningu um nemenda sem var með rafbyssu (e. taser) í skóla sínum í Breiðholti, og var með hann á lofti. Í því hverfi var jafnframt greint frá því að tveir einstaklingar hefðu verið með rænulausa konu sín á milli. Ekki kemur fram hvernig tekið var á þessum málum.

Þá var ekið á hund í Hafnarfirði, en hann lét lífið eftir atvikið.

Í miðborginni var tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi sem kastaði niður blómapottum og veittist að fólki.

Uppfært

Í samtali við Fréttablaðið segir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri, um hnífsstungumálið að lögregla hallist að því að um sjálfsáverka sé að ræða.