Í gær greindist nemandi í sjöunda bekk í Melaskóla með Covid-19.

Allir í hans bekk, auk nokkurra nemenda úr öðrum bekkjum, umsjónakennara og fjögurra annara kennara hafa verið sendir í sjö daga sóttkví. Sóttkvíin varir til 24. september en sýnataka fer fram næsta fimmtudag. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Björgvin Þór Þórhallsson, skólastjóri Melaskóla sendi foreldrum og forráðamönnum nemenda í gær.

Hann bendir á að þetta sé einungis fyrsta skrefið, smitrakning gæti kallað á frekari aðgerðir.

Þar sem að niðurstaða úr sýnatöku er ekki að vænta fyrr en á föstudagsmorgun geta nemendurnir ekki tekið hefðbundin samræmd próf sem fara fram næstkomandi fimmtudag og föstudag. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Rúv að nú þurfi að skoða með Menntamálastofnun með hvaða hætti verður hægt að gefa nemendum kost á að taka samræmd próf. Hann segir jafnframt að verið sé að vinna að lausn fyrir nemendurnar, annað hvort taki þeir prófin heima eða taki þau seinna.

Tekið er fram að einungis þeir sem voru nálægt viðkomandi nemanda, innan við tvo metra og í fimmtán mínútur eða meira, þurfa að fara í sóttkví.