Nemandi í Hagaskóla var í dag fluttur á bráðamóttöku eftir að hafa verið tekinn kverkataki af samnemanda sínum á skólatíma. Þetta kemur fram í bréfi sem S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, sendi foreldrum allra nemenda í dag.

„Það virðist vera þannig að einhverjir nemendur líti á það sem leik að taka aðra kverkataki og bíða eftir því að viðkomandi gefi merki um hvenær slepp eigi takinu,“ segir í bréfinu. „Það ætti að vera öllum ljóst að þetta á ekkert skylt við leik og getur verið stórhættulegt.“

Nemandinn féll meðvitundarlaus á gólfið eftir kverkatakið og var þá kallað á sjúkrabíl og lögreglu sem komu í skólann. Hann var þá fluttur með sjúkrabílnum á bráðamóttöku til aðhlynningar. Líðan hans er eftir atvikum.

Nokkur hópur nemenda varð þá vitni að atvikinu og var mörgum hverjum mjög brugðið. Í dag var síðasti kennsludagurinn fyrir vetrarleyfi í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins. „Ég hvet foreldra til að ræða við börnin sín í vetrarleyfinu um alvarleika málsins. Eftir helgina munu stjórnendur og kennarar tala við nemendur,“ segir Ingibjörg í lok bréfsins.