Sakborningarnir sjö í svokölluðu gagnaversmáli neituðu allir sök við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Þeir eru ákærðir fyrir stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi síðasta vetur. Í innbrotunum var tölvubúnaði fyrir 42,5 milljónir króna stolið en tjónið af völdum brotanna er metið á 78 milljónir króna, segir í ákærunni.

Tveir sakborninganna hafa verið í farbanni undanfarna mánuði, en annar þeirra var leystur úr farbanninu við þingfestinguna. Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu að Sogni, verður áfram í farbanni.

Verjendur fjögurra sakborninga fóru fram á frest til að skila greinargerð í málinu. Dómari heimilaði frestinn og verður fyrirtaka þann 4. október næstkomandi.