Tíu ár eru síðan þunga­rokks­sveitin Skálm­öld gaf út sína fyrstu plötu, Baldur, og var á­kveðið að fagna með út­gáfu tón­leika­plötu. Frétta­blaðið ræddi við gítar­leikarann, Þráin Árna Bald­vins­son, og trymbilinn, Jón Geir Jóhanns­son, í til­efni af á­fanganum sem hvorugur segist hafa búist við að ná. Auk þeirra eru í bandinu söngvarinn og gítar­leikarinn Björg­vin Sigurðs­son, hljóm­borðs­leikarinn Gunnar Ben. og bræðurnir Snæ­björn og Baldur Ragnars­synir, sem leika á bassa og gítar.

„Við ætluðum bara að hafa gaman í æfinga­hús­næðinu og loksins gefa út eina þunga­rokks­plötu, komnir á miðjan aldur,“ segir Jón Geir um fyrstu skrefin. „Ég hélt að þetta myndi ekki seljast heldur myndum við fá okkar ein­tök af plötunni til að gefa frændum og frænkum í jóla­gjöf næstu 20 árin,“ segir Þráinn.

Raunin varð hins vegar önnur. Upp­lagið af Baldri seldist upp á einni viku fyrir jólin 2010. Jón Geir segir að þeir hafi senni­lega hitt á réttan tíma­punkt, eftir hrunið hafi Ís­lendingar verið í sjálfs­þurftar­hugsunar­hætti og kunnað vel að meta þetta. Síðan hefur Skálm­öld gefið út fjórar hljóð­vers­plötur til við­bótar, tón­leika­plötu með Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands og leikið á hundruðum tón­leika á Ís­landi, í Evrópu og Ameríku og eru á samningi við út­gáfu­fyrir­tækið Napalm Records í Austur­ríki.

Reyna að hanga með

Skálm­öld á­kvað að taka pásu í ár og leika á engum tón­leikum. Síðan skall far­aldurinn á. Þrátt fyrir pásuna hafa þeir þó haft í nógu að snúast, meðal annars með út­gáfu nýju plötunnar, Live in Reykja­vík, en einnig er bók á leiðinni um sveitina eftir breska höfundinn Joel McIver, sem meðal annars hefur skrifað sögu Metalli­ca, Slayer og Black Sabb­ath.

„Það er ekkert plan. Við látum boltann bara rúlla,“ segir Jón Geir um fram­tíðina. „Og reynum að hanga með!“ segir Þráinn og hlær. Segjast þeir núna vera orðnir langtum betri hljóð­færa­leikarar en þeir voru í byrjun. „Ég gat þetta ekki. Ég þurfti að læra að spila þunga­rokk upp á nýtt, þennan ó­mennska hraða,“ segir Jón um fyrstu æfingarnar, en hann hafði áður verið í hljóm­sveitum sem spiluðu léttari músík, Am­pop og Hrauni. „Ég reyndi að spila eins margar nótur og ég gat á sem stystum tíma. Því ég hélt að þetta væri eina tæki­færið fyrir mig til að spila þunga­rokk. Núna er þetta hins vegar orðið mun af­slappaðra,“ segir Þráinn. Hann hafði reyndar verið í dauða­rokk­sveitinni Sor­or­icide, en að­eins síðustu mánuði líf­aldurs þeirrar sveitar.

Skálm­öld hefur haldið sínu þjóð­lega goð­sagna­þema í gegnum ferilinn og í senunni er hljóm­sveitin flokkuð sem víkinga­metall. Þeir hafa sjálfir hins vegar ekki skil­greint sig sem „víkinga­band“ og skera sig út­lits­lega úr mörgum slíkum böndum.

„Napalm vildi að lúkkið yrði í lagi og við myndum klæðast loð­feldum og hringa­brynjum á sviðinu,“ segir Jón Geir. „En við sögðum nei. Þeir héldu að við værum eitt­hvað ruglaðir þegar við sendum þeim mynd af okkur, því að ég var í hvítri skyrtu, Baldur í Ninja Turt­les bol og tveir af okkur með gler­augu. Ein­hvern veginn fengum við að klæðast eins og við vildum og fá að vera í okkar galla­buxum. En þetta kemur gagn­rýn­endum oft á ó­vart. Við látum textana og sögurnar um að skapa and­rúms­loftið.“

Snæbjörn, Björgvin, Gunnar, Þráinn, Jón Geir og Baldur passa upp á að gefa hverjir öðrum rými á löngum tónleikaferðalögum þegar menn verða þungir og sakna fjölskyldnanna.
Mynd/Aðsend

Aldrei séð Eif­fel­turninn

Þráinn segir það hafa verið mikla á­skorun að sam­rýma stans­laus tón­leika­ferða­lög og fjöl­skyldu­lífið og vinnuna. Sjálfur hafi hann sagt upp vinnu sinni í tón­mennta­kennslu og stofnað sinn eigin tón­listar­skóla, Tón­holt. Allir séu þeir þó heppnir með vinnu­veit­endur, sem sýni þessu skilning.

Jón Geir segir það bæði bölvun og blessun að hefja þetta ferða­lag svona seint. „Ég er ekki viss um að ég hefði höndlað þetta vel tví­tugur,“ segir Þráinn. Þeir séu núna orðnir of gamlir og þroskaðir fyrir lífs­stílinn sem fylgir oft rokkinu. „Í fyrra vorum við til dæmis að spila á víking­há­tíð í Wa­les. Eftir giggið sátum við allir við hús­vagn sem við fengum, spiluðum golf­leik og fórum snemma í háttinn. Það er lítið Mötl­ey Crüe í okkur,“ segir hann og brosir.

Þó að Skálm­öld ferðist um heiminn, hafa með­limir sveitarinnar lítinn tíma til að sjá hann. „Við erum heppnir ef við fáum tvo tíma á hverjum stað til að skoða okkur um,“ segir Þráinn. „Ég hef spilað átta sinnum í París og aldrei séð Eif­fel­turninn.“ „Við erum oft að spila í út­hverfum stór­borga í Evrópu. Þetta er eins og að vera að spila hér á höfuð­borgar­svæðinu og fá að­eins að sjá Skemmu­veginn í Kópa­vogi,“ segir Jón Geir.

Annað gildir þó um matinn og hlakka þeir oft til að komast til á­kveðinna landa til að fá gott að borða. „Í Ung­verja­landi fáum við kannski beikon­vafið svín og gott rauð­vín og osta í Frakk­landi,“ segir Þráinn. „Bretarnir eru hins vegar nískir.“

Mafíunni ögrað

Að­spurðir um há­punktana nefna þeir meðal annars tón­leikana með Sin­fóníunni og stórar há­tíðir þar sem gamlir rokkrisar koma einnig fram. „Svo fengum við að syngja bak­raddir með HAM frekar snemma á ferlinum,“ segir Jón Geir.

Á öllum ferða­lögunum hefur vita­skuld ýmis­legt komið upp á en allt náð að reddast á endanum. „Eitt sinn bilaði hljóm­sveitar­rútan í miðri eyði­mörk í Rúmeníu. Ein­hvern veginn náðum við að koma okkur á staðinn, fimm mínútur í gigg,“ segir Jón Geir. „Í annað sinn átti að fresta giggi í Lissabon af því að það var dauð dúfa í niður­fallinu á þakinu í gríðar­legu vatns­veðri og það næstum hrunið. Slökkvi­liðið þurfti að koma til að votta að tón­leikarnir mættu fara fram.“

Hljóm­sveitin á um­boðs­manni sínum, hinni þýsku Mer­le Doering, sem er jafn­framt lærður orrustu­flug­maður, margt að þakka. Hún sé mikill nagli, sem sé ekki einu sinni hrædd við að taka slaginn við ítölsku mafíuna.

„Ég man þegar við vorum að spila í Mílanó og Mer­le var að setja upp bola­söluna,“ segir Þráinn. „Þá komu þar að menn sem seinna kom í ljós að voru úr mafíunni. Þeir sögðust ætla að taka fjöru­tíu prósent, annars yrði ekkert selt. Hún harð­neitaði og við héldum að ekkert yrði af sölunni. En síðan sáum við fullt af fólki í bolum því hún hafði þá gefið skít í mafíuna og opnað kerru úti á götu. Mafían fékk enga peninga frá okkur.“

Jón Geir minnist rimmu við lög­regluna í Pól­landi. „Björg­vini var mikið mál og ætlaði að kasta af sér vatni í runna. Þá kom bíll með blikkandi ljós og út stigu lög­reglu­menn, vopnaðir vél­byssum, og tóku hann. Svo þurfti hann að sitja, alveg í spreng, inni í lög­reglu­bílnum á meðan þeir flettu upp í gögnum hjá Inter­pol.“

Að­spurðir hvar sé best að spila nefna þeir ein­mitt Pól­land, og alla Austur- og Suður-Evrópu. Oftast hafi þeir spilað í Þýska­landi, sem er risamarkaður og tenging við aðra staði í Evrópu. Þráinn segir það tak­mark að spila í Suður-Ameríku, Japan og Ástralíu.
Gefa hverjir öðrum rými

Sjald­gæft er að hljóm­sveitir endist í tíu ár án manna­breytinga, sér­stak­lega í sex manna band eins og Skálm­öld. „Við erum góðir í að gefa mönnum rými,“ segir Þráinn. „Á giggi númer sau­tján á löngum túr kemur það fyrir að ein­hver er orðinn mjög þungur og saknar fólksins síns heima. Þá fá menn rými til að loka sig af eða fá gott pepp frá okkur hinum. Einnig hefur það komið fyrir að við höfum fengið af­leysinga­fólk á á­kveðna túra.“

Enginn er á­berandi front­maður Skálmaldar. Jón Geir segir að Snæ­björn sé kannski há­værastur en Björg­vin hafi loka­orðið. „Björg­vin er rödd skyn­seminnar í glóru­lausu bandi,“ segir Þráinn og hlær. „Baldur telur sig vera fyndnastan,“ segir Jón Geir og Þráinn tekur undir það. „Hann er ung­lambið og partíljónið. Fyrstur til að kynnast hinum böndunum.“ Báðir eru sam­mála um að Snæ­björn og Gunnar hrjóti mest. „Á hótelum verða þeir að vera saman í her­bergi því það er ekki hægt að bjóða öðrum upp á þetta svart­hol sem myndast.“

Næsti túr er skipu­lagður vorið 2021 en Þráinn og Jón Geir segja að það verði að ráðast hvort orðið geti af honum í ljósi far­aldursins. Þangað til geti að­dá­endur að minnsta kosti yljað sér við tón­leika­plötuna sem kom út í gær. Var hún tekin upp í Gamla bíói í loka­hrinunni fyrir pásu sveitarinnar. Segja þeir plötu sem þessa hafa verið lengi á dag­skránni. „Þetta er hrá tón­leikaplata, beint af skepnunni og ekkert átt við upp­tökuna,“ segir Þráinn.