Héraðs­sak­sóknari hefur gefið út á­kæru á hendur sex manns; fimm körlum og konu, fyrir stór­felld fíkni­efna­laga­brot. Fólkinu er meðal annars gefið að sök að hafa staðið að fram­leiðslu á am­feta­míni í sumar­húsi í Borgar­nesi og ræktað kanna­bis í úti­húsi á Hellu – hvoru tveggja í sölu- og dreifingar­skyni.

Málið var þing­fest í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun. Tveir játuðu aðild að kanna­bis­ræktuninni á meðan aðrir neituðu að tjá sig um sakar­giftirnar. Á­stæðan er meint peninga­þvætti sem er til rann­sóknar í tengslum við fram­leiðsluna en sú rann­sókn stendur enn yfir.

Peninga­þvættis­rann­sókn í gangi

Rann­sókn á þeim hluta er hvergi nærri lokið, sagði sak­sóknari við þing­festinguna, að því er greint er frá á Vísi. Þar af leiðandi neituðu þeir sem á­kærðir eru fyrir am­feta­mín­fram­leiðsluna að tjá sig um sakar­efnið.

Alvar Óskars­son og Einar Jökull Einars­son eru meðal á­kærðu í málinu, en þeir hlutu báðir þunga dóma í Pól­stjörnu­málinu svo­kallaða. Alvar hlaut þá sjö ára dóm og Einar Jökull níu og hálft ár.

Á­kæran er í fimm liðum. Öll eru á­kærð fyrir að hafa í úti­húsi við bæinn Stóra-Rima­kot á Hellu ræktað kanna­bis en í húsinu fundust 206 kanna­bis­plöntur, 111,50 kanna­bis­stönglar og 823 grömm af marí­húna.

Hnúa­járn og kaffi­pokar

Í næsta á­kæru­lið eru Alvar, Einar og Margeir Pétur Jóhanns­son á­kærðir fyrir stór­fellt fíkni­efna­laga­brot með því að hafa í sumar­húsi að Hey­holti í Borgar­nesi staðið að fram­leiðslu og haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingar­skyni, tæp­lega 8,6 kíló af am­feta­míni, sem afði á bilinu 43-57 prósent styrk­leika.

Þá segir að í bíl Al­vars hafi fundist 7,8 grömm af am­feta­míni og á öðrum á­kærða fundust sterar, eða stungu­lyfin nadrolon og testosteron.

Héraðs­sak­sóknari krefst að lokum í á­kærunni að fá að gera fjöldann allan af hlutum sem notaðir voru til fram­leiðslunnar upp­tæka, og má þar meðal annars nefna peninga, gróður­húsa­lampa, hnúa­járn, gas­kúta, gasofn, ljósa­perur, hita­mæla, sprautu­nálar, þurrk­grindur, et­hanol brúsa, aset­on brúsa, sveppa­eyði, kaffi­poka, inn­pökkunar­vél, dropa­teljara, öryggis­gler­augu, ein­nota hanska og margt margt fleira.