Hjón með ung börn sem komu til landsins í gær með flugi neituðu að fara í skimun í Leifsstöð en það er nú skylda að fara í sýnatöku við landamærin fyrir komu inn í landið. Þau biðu við sýnatökuhliðið í um þrjá til fjóra tíma þar til þau gáfu sig loks og samþykktu að fara í sýnatöku. Vísir greinir frá þessu.
Fjölskyldan kom til landsins eftir hádegi í gær. Börnin voru nógu ung til að sleppa sýnatöku en það vildu foreldrarnir einnig gera. Nýjar reglur við landamærin, sem tóku gildi síðasta föstudag, 15. janúar, gera þó sýnatöku að skyldu við komu inn í landið.
Því var hjónunum ekki hleypt inn í landið og ljóst að þau hefðu þurft að útvega sér fari aftur úr landinu hefðu þau ekki samþykkt að fara loks í sýnatökuna. Þau hafa komist að því að skárra væri að fara í sýnatökuna, þó eftir um tæplega fjórar klukkustundir af umhugsun um málið.
Allir eru skyldugir til að fara í tvöfalda sýnatöku við landamærin og þurfa hjónin því auðvitað að mæta aftur í sýnatöku eftir fimm til sex daga. Þangað til eiga þau að vera í sóttkví.