Hjón með ung börn sem komu til landsins í gær með flugi neituðu að fara í skimun í Leifs­stöð en það er nú skylda að fara í sýna­töku við landa­mærin fyrir komu inn í landið. Þau biðu við sýna­töku­hliðið í um þrjá til fjóra tíma þar til þau gáfu sig loks og sam­þykktu að fara í sýna­töku. Vísir greinir frá þessu.

Fjöl­skyldan kom til landsins eftir há­degi í gær. Börnin voru nógu ung til að sleppa sýna­töku en það vildu for­eldrarnir einnig gera. Nýjar reglur við landa­mærin, sem tóku gildi síðasta föstu­dag, 15. janúar, gera þó sýna­töku að skyldu við komu inn í landið.

Því var hjónunum ekki hleypt inn í landið og ljóst að þau hefðu þurft að út­vega sér fari aftur úr landinu hefðu þau ekki sam­þykkt að fara loks í sýna­tökuna. Þau hafa komist að því að skárra væri að fara í sýna­tökuna, þó eftir um tæp­lega fjórar klukku­stundir af um­hugsun um málið.

Allir eru skyldugir til að fara í tvö­falda sýna­töku við landa­mærin og þurfa hjónin því auð­vitað að mæta aftur í sýna­töku eftir fimm til sex daga. Þangað til eiga þau að vera í sótt­kví.