Ómar Örn Bjarn­þórs­son, lög­maður manns sem var hand­tekinn í Holta­smára í síðustu viku, vegna gruns um að vera með hryðju­verk í undir­búningi, segir að skjól­stæðingur sinn neiti öllum á­sökunum.

Morgun­blaðið greinir frá þessu í dag.

„Þeir eru komnir miklu lengra í rann­sókn á honum, þeir eru með símann og tölvuna hans. Það var ekkert vesen á því að af­henda lög­reglu lykil­orð að öllum tækjunum,“ segir Ómar við Morgun­blaðið en skjól­stæðingur hans var úr­skurðaður í tveggja vikna gæslu­varð­hald.

Ómar kveðst eiga von á því að lög­regla fari fram á lengra gæslu­varð­hald. Þá er hann nokkuð gagn­rýninn á störf lög­reglu í málinu. „Þeir keyrðu svo­lítið hratt yfir sig á þessum blaða­manna­fundi hjá lög­reglunni miðað við hvað málið er á við­kvæmu rann­sóknar­stigi að mínu mati.“

Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir ríkis­lög­reglu­stjóri sagði um helgina að til stæði að halda blaða­manna­fund vegna málsins snemma í þessari viku. Mark­miðið væri að upp­lýsa eins mikið og hægt er varðandi um­rædda rann­sókn.